Föstudagur 17. ágúst 2001

229. tbl. 5. árg.

Fyrir nokkru gaf Íslendingasagnaútgáfan/Muninn út bókina Vindlar. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar hún um vindla og þá ánægju sem fólk hefur af því að reykja góðan vindil. Í bókinni er rakin saga vindilsins og lesandinn er fræddur um hvernig vindlar eru framleiddir og hvernig best er að geyma þá. Þá er fróðleikur um mat og vindla, hvernig vindlar og einstakar matartegundir passa saman. Þannig segir í bókinni að sætir vindlar passi sérstaklega vel við safamiklar kássur og kjötbökur en mildur vindill eins og Dominican skerpi bragðið af humri og öðrum skelfiskréttum. Enn fremur segir bókin, sem er fróðleg og skemmtileg, frá ýmsum þekktum vindlamönnum, þó fáir þessara vindlamanna hafi haft eins mikil kynni af vindlum og sá þekktasti þeirra. Frá því Winston Churchill hóf vindlareykingar 22 ára gamall reykti hann 10 vindla dag hvern og náði því að reykja meira en 250.000 vindla áður en hann lést, kominn talsvert á tíræðisaldur.

Þessi fallega mynd er úr hinni glæsilegu bók, Vindlum
Þessi fallega mynd er úr hinni glæsilegu bók, Vindlum

En þó bókin sé fróðleg og skemmtileg, auðlesin og falleg frá hendi útgefandans, þá er á henni stór galli. Eftir 1. ágúst 2001 hefur hún verið ólögleg á Íslandi en sala hennar og dreifing mun varða við tóbaksvarnarlög þeirra Jónínu Bjartmarz og Þorgríms Þráinssonar. Þessi fallega litla bók um vindla er víst ekki gefin út gagngert í þeim tilgangi að vara við vindlareykingum og því er hún bönnuð samkvæmt Bjartmarz-lögunum.

Eða er ekki svo? Ja, hvað á eiginlega að segja um Bjartmarz-lögin? Er hugsanlegt að þau fái staðist þegar þorgrímarnir fara að færa væntanlega brotamenn til dómstóla? Er hugsanlegt að Jónínu Bjartmarz og félögum hennar haldist uppi að banna fullorðnu fólki að tala um tóbaksreykingar? Og þetta með veitingahúsin, er virkilega hugsanlegt að bannreglur Bjartmarz-laganna, þessar reglur sem banna eigendum veitingahúsa að leyfa reykingar í eigin húsum, að þær standist? Þegar horft er til þess að enginn er neyddur inn á veitingahús og engum er haldið þar inni gegn vilja sínum, verður þá ekki að ætla að veitingahússgestur sem finnur tóbaksreyk en ákveður að vera engu að síður inni á skemmtistaðnum, að hann hafi einfaldlega afsalað sér „rétti sínum til reykleysis“? Og þegar tóbaksreykur á veitingastað er ekki neyddur ofan í nokkurn mann, er þá hugsanlegt að hið opinbera hafi rétt til að skerða eignarrétt veitingahússeigandans með svo afgerandi hætti sem reynt er í Bjartmarz-lögunum?

Nei, það getur varla verið. Það verður að minnsta kosti forvitnilegt að fylgjast með Boga Nilssyni þegar hann byrjar að ákæra menn fyrir að „brjóta“ Bjartmarz-lögin.