Miðvikudagur 15. ágúst 2001

227. tbl. 5. árg.

Ætli þeir séu margir núna, staddir í Þorlákshöfn, sem þurfa nauðsynlega að komast hið snarasta til Grindavíkur? Eða eru kannski hópar manna strandaglópar í Njarðvík en verða að komast sem allra allra fyrst til Stokkseyrar? Ætli það sé sérstaklega algengt að mönnum liggi lífið á að komast frá Ölfusinu út á ystu odda Reykjaness? Ja, það skyldi þó ekki vera. Að minnsta kosti eru nú uppi ráðagerðir um að ríkið láti byggja svo kallaðan „suðurstrandarveg“ til þess að „tengja betur“ þessi svæði. Og þessi vegur sem nú virðist allt í einu vera óskaplega áríðandi að verði lagður, hann mun hafa það einkum sér til ágætis að stytta „leiðina milli Þorlákshafnar og Grindavíkur“ um nokkra kílómetra.

Og hvað halda menn að skattgreiðendur eigi að greiða fyrir þennan nýja veg? Hundrað milljónir? Tvö hundruð milljónir? Eða kannski hálfan milljarð króna? Nei, þetta er sko „suðurstrandarvegurinn“ sjáiði, og slíkt fá menn ekki frítt. Þannig að nú er gert ráð fyrir því að verja ellefu hundruð milljón krónum af skattfé í þennan veg, sem mun stytta „leiðina milli Þorlákshafnar og Grindavíkur“ um nokkra kílómetra. Eitt þúsund og eitthundrað milljónir króna, þökk fyrir. Ja, það er bara eins gott að þeir í Grindavík verði duglegir að heimsækja þá í Þorlákshöfn þegar þessi nýi vegur verður kominn í „gagnið“.

En í alvöru talað, getur mönnum verið alvara með að halda svona hugmynd til streitu? Af hverju þarf allt í einu rándýran nýjan veg milli Þorlákshafnar og Grindavíkur? Af hverju kemur enginn vitinu fyrir þá þingmenn sem stóðu í því að berja þessa hugmynd í gegn? Af hverju sitja þingmenn allra flokka á Alþingi og samþykkja endalausar útgjaldahugmyndir sem streyma frá ábyrgðarlausum mönnum? Einn komma einn milljarður króna allt í einu í „suðurstrandarveg“ sem engin sérstök þörf hefur verið á hingað til, og enginn segir neitt.

En kannski er ekki við miklu að búast af þingmönnum. Samþykktu þeir ekki mótatkvæðalaust fæðingarorlofslögin sem fyrir utan að mismuna börnum stórkostlega kosta skattgreiðendur um þrjá milljarða króna á hverju einasta ári? Samþykktu þeir ekki mótatkvæðalaust tóbaksvarnarlögin sem skerða stórlega eignarrétt og tjáningarfrelsi hins almenna borgara? Samþykkja þeir ekki mótatkvæðalaust öll þau lög sem leggja stóraukna byrði á skattgreiðendur? Samþykkja þeir ekki mótatkvæðalaust flest „framsæknu“ frumvörpin sem skerða eignarrétt eða athafnafrelsi hins almenna borgara?

Og fjármálaráðherrann? Menn vita nú hversu áhugasamur hann er um málefni skattgreiðenda. Og hversu hugaður hann er þegar kemur að því að taka afstöðu sem kynni að mælast illa fyrir hjá þrýstihópum.