Laugardagur 11. ágúst 2001

223. tbl. 5. árg.

Americans for Tax Reform heitir félagsskapur í Bandaríkjunum sem beitir sér fyrir lægri, einfaldari, flatari, sýnilegri og sanngjarnari sköttum. Þessi félagsskapur er eins og gefur að skilja býsna ánægður með þá skattalækkun sem George W. Bush forseti hefur hrint í framkvæmd og ekki síður þá skattalækkun sem Ronald Reagan stóð fyrir, en í þessum mánuði eru tuttugu ár frá því Reagan hóf að lækka skatta á Bandaríkjamenn. Gefin hefur verið út sérstök skýrsla í tilefni af þessu til að sýna fram á hversu jákvæðar afleiðingar skattalækkun Reagans hefur haft á Bandaríkin, en full þörf er á að draga fram réttar staðreyndir um efnahagsmál í Bandaríkjunum á níunda áratug nýliðinnar aldar, því vinstri menn hafa verið iðnir við kolann að sverta þá efnahagsstefnu sem þá var rekin og byggðist að drjúgum hluta á skattalækkun.

Ronald Reagan forseti á forsiðu Time 21. september 1981
Ronald Reagan forseti á forsiðu Time 21. september 1981

Í skýrslunni er minnt á að þegar Reagan tók við af Jimmy Carter í byrjun níunda áratugarins var efnahagsástandið bágborið. Skattar voru háir og sömuleiðis verðbólga og vextir. Atvinnuleysi fór vaxandi, rauntekjur lækkandi, fátækt vaxandi og hagvöxtur var orðinn að engu, svo nokkuð sé nefnt. Aðgerðir Reagans fólust að sögn skýrsluhöfundar, Peter J. Ferrara, í því að lækka skatta almennt og umtalsvert, draga úr útgjöldum, skera niður reglugerðir og reka trausta peningastefnu til að takmarka verðbólgu. „Reagan framkvæmdi stefnuna skyndilega og árangurinn varð mesti efnahagsvöxtur á friðartíma í Bandaríkjunum og nærri 20 milljónir nýrra starfa urðu til. Ef marka mætti ýmsa sem tjá sig í fjölmiðlum í dag mætti hins vegar ætla að þetta hafi verið eymdartímar,“ segir Ferrara, og bætir við að vinstri menn hafi verið ósáttir við þá stefnu Reagans að leyfa fólki að halda eftir stærri hluta tekna sinna og að færa vald frá ríkinu til fólksins.

Því hefur oft verið haldið fram að skattalækkun Reagans hafi verið ábyrgðarlaus því eyðslan hafi aukist og halli því myndast á ríkiskassanum. Ferrara svarar því til að þrátt fyrir skattalækkunina – eða ef til vill vegna hennar – hafi tekjur ríkisins aukist um ríflega fjórðung á níunda áratugnum á föstu verðlagi. Reagan hafi hins vegar alla forsetatíð sína þurft að eiga við þing sem var undir meirihluta demókrata og það hafi staðið í vegi fyrir lækkun ríkisútgjalda. Aukning útgjalda á níunda áratugnum hafi því verið meiri en aukning tekna, eða um þriðjungur á föstu verðlagi. Þessi aukning hafi að vísu farið lækkandi í lok níunda áratugarins og fjárlagahallinn hafi verið orðinn svipaður og hann var áður en Reagan hóf skattalækkanir sínar.

Margar tölur eru tíndar til í skýrslunni og ekki unnt að rekja þær allar hér en þó er rétt að nefna að verðbólga lækkaði úr um 13% þegar Reagan tók við í rúmlega 3% þegar hann hætti. Vextir lækkuðu einnig umtalsvert og hagvöxtur varaði sleitulaust frá árslokum 1982 til 1990 og á þeim tíma stækkaði hagkerfið um þriðjung á föstu verðlagi. Þetta var tvöfaldur hagvöxtur áratugarins á undan.

Sú gagnrýni sem vinstri menn hafa helst reynt að búa til um Reagan-áratuginn er að hann hafi verið óhagstæður hinum fátæku. Ekkert er fjær sanni eins og sjá má af tölum í skýrslu Ferrara. Taka má dæmi af þeim störfum sem urðu til, en fyrir utan að störfum hafi fjölgað mjög mikið þá fjölgaði vel launuðum störfum óvenjulega mikið. Þetta þýðir með öðrum orðum að það fengu bæði fleiri vinnu en áður og þeir fengu betur launaða vinnu en áður. Ein af afleiðingum lægri skatta og betra ástands á vinnumarkaði var að tekjur allra tekjuhópa þjóðfélagsins hækkuðu, ekki aðeins hinna ríkari eins og vinstri menn hafa haldið fram. Vinstri menn hafa hins vegar verið síður fúsir til að geta þess að í tíð félaga þeirra Carters, 1977 til 1980, lækkuðu tekjur allra tekjuhópa. Loks er rétt að svara enn einni goðsögn vinstri manna, en samkvæmt henni lækkaði Reagan skatta aðallega til hagsbóta fyrir hina ríku. Staðreyndin er sú að ríkasta 1% þjóðarinnar greiddi árið 1988 28% alls tekjuskatts, en hafði árið 1981 greitt 18% tekjuskattsins. Ríkasti hópurinn greiddi sem sagt stærri hluta tekjuskattsins eftir skattbreytingarnar. Og árið 1990 greiddu ríkustu 5% bandarísku þjóðarinnar 49% alls tekjuskattsins, en allur fátækari helmingur þjóðarinnar greiddi aðeins 6%. Þetta var nú allt ranglæti Reagan-stjórnarinnar gagnvart hinum efnaminni.