Því er stundum haldið fram að gangi Íslendingar í Evrópusambandið þá muni þeir frá sömu stundu „hafa áhrif á þróun sambandsins“ og hafa sitt að segja um þær reglur sem gilda innan þess. Og eins og margt annað sem sagt er til stuðnings því að Íslendingar gangi í þetta samband, þá er þessi fullyrðing í besta falli afar hæpin. Miklu líklegra er að Íslendingar – eða kjörnir fulltrúar þeirra – muni varla hafa skapaðan hlut um það að segja hvað forkólfar Evrópusambandsins ákveða fyrir þeirra hönd. Og það sem meira er, slík örlög bíða ekki einungis fámennra þjóða sem álpast inn í þetta samband.
Eins og sagt hefur verið frá í Vefþjóðviljanum og fleiri fjölmiðlum, þá reyndu írskir kjósendur á dögunum að greiða atkvæði gegn staðfestingu hins svokallaða Nice-sáttmála sem breytir grundvallarreglum Evrópusambandsins. Og ráðamenn þessa sambands lýstu því þegar í stað yfir að ekkert yrði gert með þá staðreynd að írskir kjósendur hefðu hafnað þessum sáttmála, honum skyldi þröngvað yfir þá nauðuga viljuga. Þessi eru semsagt „áhrif“ Íra á þróun Evrópusambandsins.
En Írland er ekki eina landið sem þarf að staðfesta þennan umrædda sáttmála, þó það sé að vísu eina landið sem hættir á að bera hann undir atkvæði kjósenda. Öll ríki Evrópusambandsins þurfa að staðfesta sáttmálann svo hann taki gildi. En það er víst aðallega að nafninu til. Því meira að segja stór og voldug ríki, þau komast ekki upp með neitt múður. Nú liggur Nice-samningurinn til dæmis fyrir breska þinginu. Og þá heldur kannski einhver að þingmenn hafi aðgang að samningnum og geti kynnt sér í heild kosti hans og galla. En það er nú ekki svo. Tristan Garel-Jones, sem þangað til í sumar var Evrópuráðherra ríkisstjórnar Verkamannaflokksins, sagðist álíta að það væri óviðeigandi – „improper“ – ef stjórnvöld gæfu samninginn út í heild áður en hann væri staðfestur. Þingmenn breska þingsins verða því að gera svo vel að greiða atkvæði um samninginn svona nokkurn veginn óséðan.
Meginumræðan um samninginn fór fram í síðasta mánuði og þess var gætt að hún færi fram á þingfundi sem að mestu fór í jómfrúrræður þingmanna sem komu nýir inn eftir kosningarnar í maí. Og samkvæmt reglum breska þingsins eiga slíkar ræður að vera um ágreiningslaus atriði.
Og þegar breskir þingmenn fá varla að kynna sér boðskapinn úr Brussel áður en þeir eiga að samþykkja hann umræðulítið, þá halda menn að Íslendingar geti bara gengið hnarreistir inn í Evrópusambandið og þegar í stað farið að „láta rödd sína heyrast“.