Fimmtudagur 9. ágúst 2001

221. tbl. 5. árg.

Morgunblaðið kemur fólki sjaldan á óvart, en gott ef því tókst það ekki tvisvar í síðustu viku. Í blaðinu var birtur pistill um e-pilluna þar sem frekar var lýst kostum pillunar en göllum. Óhætt er að segja að ekki var búist við slíkum skrifum úr penna innanbúðarmanns á Morgunblaðinu og ýmsir veltu því fyrir sér hvort blaðið væri e.t.v. að skipta um afstöðu til fíkniefnabannsins. En maður skyldi víst aldrei segja aldrei. Morgunblaðið yrði ekki fyrsta blaðið til að breyta um skoðun í þessu máli og eins og lesendum Vefþjóðviljans er eflaust kunnugt hefur The Economist barist fyrir lögleyfingu fíkniefna í meira en áratug. Og The Economist er ekki beinlínis fulltrúi ofbeldisfullra stjórnleysingja og almennrar þjóðfélagsupplausnar frekar en Morgunblaðið.

Skömmu eftir að Morgunblaðið hafði birt þennan pistil, birtist allt önnur og „moggalegri“ afstaða í leiðara blaðsins. Þar var fíkniefnum úthúðað og lögð mikil áhersla á baráttuna, eða öllu heldur stríðið, gegn þeim. Það að þessi leiðari skyldi skrifaður kemur alls ekki á óvart, en þó er þar að finna hitt atriðið sem kom á óvart í skrifum blaðsins í síðustu viku. Þessi leiðari er einfaldlega eitt langbesta dæmið um algeran og fullkominn röksemdaskort þeirra, sem styðja núverandi fíkniefnabann, sem birst hefur á prenti hérlendis. Það kemur óneitanlega á óvart að Morgunblaðið, með allan þennan fjölda reyndra blaðamanna og samfélagsrýna, getur ekki boðið upp á neitt skárra máli sínu til stuðnings.

Vefþjóðviljinn er þess sannfærður að fíkniefnabannið muni einhvern tímann líða undir lok þó svo hann sé einnig sannfærður um að það gerist ekki fyrst hér á Fróni. Það skiptir jafnframt meira máli að lögleyfing gangi fyrst í gegn í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu, þar sem bannið hefur nokkuð alvarlegri afleiðingar þar en hér, alltént enn sem komið er. Þegar það gerist fylgir Ísland með þótt síðar verði. Þangað til er kannski íhugandi að klippa út umræddan leiðara Morgunblaðsins og ramma hann inn, því ef það sem þar er skrifað er það besta sem einn stærsti og virtasti fjölmiðill landsins getur boðið upp á til stuðnings fíkniefnabannsins, þá má ljóst vera að þetta er bara spurning um tíma.