Vefþjóðviljinn sagði frá því um áramótin að ef Evrópusambandið fær að ráða þá verða hinar vinsælu áramótabrennur bannaðar á Íslandi innan fárra missera. Evrópusambandinu hefur þegar tekist að fá því framgengt að brennurnar „mega“ nú aðeins loga í fjóra klukkutíma áður en slökkviliðinu skal sigað á þær og stefnan í Brussel mun sú að brennurnar leggist með öllu af. En það eru ekki bara áramótabrennur sem gætu horfið einn góðan veðurdag. Nú er nefnilega búið að setja reglur þess efnis að enginn megi kveikja varðeld nema með sérstöku leyfi sýslumanns.
Og þetta leyfi verður auðvitað ekki gefins. Leyfið kostar 20 þúsund krónur og ber að sækja um það með fimmtán daga fyrirvara. Ferðamenn á göngu um Árneshrepp á Ströndum sem eitt kvöldið vilja kveikja varðeld og draga upp söngbækur verða að syngja í myrkri nema einhver úr hópnum hafi verið svo forsjáll að banka fimmtán dögum áður upp á hjá sýslumanninum á Hólmavík og greiða 20 þúsund krónur fyrir leyfi til tendrunar varðelds.
Já, það er alltaf verið að setja nýjar reglur, leggja ný bönn á fólk, krefjast þess að fólk útvegi sér fleiri og fleiri leyfi. Og allt er þetta víst gert af tómri fagmennsku og fólki í raun í hag. Ef áramótabrennur fengju að loga lengur en fjóra tíma, hvernig færi það eiginlega? Já eða ef menn mættu kveikja varðeld án leyfis sýslumanns, hvar halda menn að það myndi enda? Það yrði fljótlega svo mikið af varðeldum að landið logaði endanna á milli. Nei, svona reglur, eru þær ekki bara eðlilegar? Svo er ekki eins og verið sé að banna mönnum að kveikja varðeld, nei nei, menn þurfa bara að sækja um leyfi með eðlilegum fyrirvara, greiða hóflegt gjald og svo verður umsókn þeirra afgreidd á málefnalegan hátt.
En allar þessar reglur hafa ýmsa galla – fyrir utan þann stærsta að með þeim er enn vegið að ört minnkandi athafnafrelsi almennra borgara. Allar þessar hegðunarreglur, sem yfirleitt eru settar undir því yfirskini að þeim sé ætlað að tryggja öryggi borgaranna, þær hafa þær afleiðingar að smám saman hætta menn að taka ábyrgð á eigin gerðum. Því ýtarlegri sem „öryggisreglur“ eru, því hættara er mönnum við að líta svo á að svo lengi sem þeir uppfylla almenn skilyrði reglnanna séu þeir að fara að öllu með nægilegri gát. Það sem sé eftir reglunum, það sé í lagi. Með öðrum orðum, fólki hættir við að miða gerðir sínar og ákvarðanir við settar „öryggisreglur“ en ekki það sem skynsemin myndi að öðrum kosti bjóða. Og almenn skynsemi, hún tekur „öryggisreglunum“ yfirleitt langt fram.