Netkosningar eru sérkennileg fyrirbrigði. Á líklegum sem ólíklegum vefsíðum er lesendum gefinn kostur á að „greiða atkvæði“ um ýmis misbrýn álitamál. Niðurstöðurnar eru svo birtar á síðunni og vekja oft talsverða athygli og jafnvel því meiri sem bersýnilegra ætti að vera að einhver hefur gert sér að leik að skekkja þær með því að kjósa linnulaust sjálfur. Netkosningarnar eru nefnilega flestar ef ekki allar með þeim ágalla – þrátt fyrir yfirlýsingar sumra um hið gagnstæða – að þar getur hver sem er kosið eins oft og hann vill og fengið „atkvæði“ sitt talið í hvert sinn.
Hvað um það, ef menn átta sig á því að niðurstöður netkosninga eru álíka marktækar og stjörnuspáin í Morgunblaðinu, sem blaðið sjálft segir að „byggist ekki á traustum grunni vísindalegra staðreynda“, þá er ekkert að því að fjölmiðlar slái upp þessum niðurstöðum og birti sem sérstakar fréttir undir stórri fyrirsögn og litmyndum af málsaðilum. Jafnvel geta slíkar „kannanir“ hvatt fólk til að velta fyrir sér álitamálum og koma sér upp skoðun á þeim. Ein þessháttar könnun er nú í gangi á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar Útvarps sögu og er þar spurt hvort leyfa eigi sölu á léttu áfengi í matvöruverslunum. Sú könnun hefur það umfram margar aðrar að á síðunni gefst fólki kostur á að kynnast andstæðum sjónarmiðum um málið en þar má heyra Hauk Þór Hauksson formann Samtaka verslunarinnar og Steingrím J. Sigfússon formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala með og móti frjálsum viðskiptum.
Talandi um svindl um netið. Það fer ekki aðeins fram í netkosningunum. Í fyrra fór fram í Kópavogi svo kallað heimsmót í skák og kepptu þar Friðrik Ólafsson og Garry Kasparov auk fleiri meistara. Meðal annars gátu skákmenn unnið sér þar sæti með sigri á netskákmóti sem haldið var af þessu tilefni. Um þetta netskákmót segir einn þekktasti skákmaður heims, enski stórmeistarinn Nigel Short, í pistli sínum í The Sunday Telegraph á dögunum: „Netskák býður því miður beinlínis upp á svindl. Undanrásir fyrir tiltölulega þýðingarlaust mót á Íslandi í fyrra sýndu mér ýmsar svindlhætturnar glögglega. Það var ekki bara það, að ég hafi með gjörunna stöðu setið undir látlausum jafnteflisboðum stórmeistarans Alexis Dreevs – velheppnuðum tilraunum hans til að rjúfa einbeitingu mína – heldur gekk sigurvegarinn, Alexander Wojtkiewicz, svo langt að fá vin sinn, Jaan Ehlvest [heimsþekktan eistneskan stórmeistara], til að tefla sumar skákirnar fyrir sig. Það var honum talsverður ávinningur, þó ekki væri fyrir annað en það mótinu lauk eldsnemma morguns.“