Mestalla síðustu öld ráku sovésk stjórnvöld fjölmargar vinnubúðir í Síberíu og öðrum afskekktum hlutum Sovétríkjanna sálugu. Milljónir, jafnvel tugmilljónir manna, voru fluttar þangað til „endurhæfingar“ þar sem talið var að þær væru óvinir ríkisins eða byltingarinnar. Aðbúnaður í fangabúðunum var hinn versti og talið er að þar hafi milljónir manna látið lífið úr kulda og hungri eða af völdum barsmíða, pyntinga eða fyrir byssukúlum fangavarða. Síberíuvist var það úrræði sem sovésk stjórnvöld beittu þá þegna sína sem höfðu orðið uppvísir að því að efast um ríkjandi stjórnskipulag og þá sem minnsti grunur lék á um að gætu orðið hættulegir ríkinu.
Rússneski rithöfundurinn, sagnfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Alexander Solsjenitsyn fjallar á ógleymanlegan hátt um sovéska fangabúðakerfið í Gúlag-eyjunum og fleiri bókum sínum en vegna skrifa sinna var hann rekinn frá Sovétríkjunum og sviptur ríkisborgararétti þar. Eftir fall Sovétríkjanna hafa margar staðreyndir um Gúlagið komið fram í dagsljósið. Fangabúðirnar voru eins misjafnar og þær voru margar en í flestum þeirra átti sér stað þrælkunarvinna og hafði kerfið verulega efnahagslega þýðingu fyrir Sovétríkin. Vinnuaflið var ódýrt því fangarnir fengu engin laun og kerfið sá þeim einungis fyrir lágmarks-aðbúnaði og matarskammti. Sovéska leynilögreglan KGB sá síðan um það að fylla í skörð þeirra mörgu sem báru beinin í fangabúðunum. Eftir fall Sovétríkjanna var föngunum sleppt og hafa flestar búðirnar verið mannlausar síðan.
Í vikunni bárust fréttir frá Rússlandi sem minna óþyrmilega á Gúlagið. Um árabil hafa stjórnvöld í félagshyggjuríkinu Norður-Kóreu nefnilega greitt afborganir af skuldum sínum við Rússa með því að útvega þeim vinnuafl sem sent hefur verið á gamalkunnar slóðir í Síberíu. Norður-kóreskir verkamenn hafa verið fluttir nauðugir frá heimkynnum sínum og látnir starfa launalaust, m.a. við skógarhögg, í lokuðum vinnubúðum sem norður-kóreskir og rússneskir öryggisverðir gæta. Virðast einhverjar sovéskar vinnubúðir þannig hafa öðlast nýtt líf en nú með norður-kóreskum verkamönnum. Í frétt Morgunblaðsins á laugardaginn kemur fram að í fyrra dugði þessi þrælkunarvinna kóresku verkamannanna fyrir um 90% afborgana af skuldum Norður-Kóreu við Rússa og nú eru stjórnvöld landanna að semja um áframhald á þessu þrælahaldi.