Því miður einkennist barátta umhverfisverndarsinna oft af hræðsluáróðri og einkennilegum ofsa. Þeir sjást ekki fyrir. Silent Spring heitir bók sem kom út árið 1962 og nokkrum árum síðar kom út á íslensku undir nafninu Raddir vorsins þagna. Björn Bjarnason menntamálaráðherra gat bókarinnar í pistli á heimsíðu sinni 26. júlí síðastliðinn. Og það er rétt sem Björn bendir á í pistlinum að ýmsum þótti bókin merkileg á þeim tíma er hún kom út. Jafnvel hefur hún verið nefnd biblía umhverfisverndarsinna. En af þeim 40 fuglategundum sem höfundur bókarinnar, Rachel Carson, taldi að maðurinn væri að útrýma árið 1962 voru árið 1995 19 tegundir í góðu jafnvægi, 14 tegundir að fjölga sér og 7 tegundir í niðursveiflu. Hún er því dæmigerð fyrir allan málflutning umhverfisverndarsinna: Skrattinn er málaður á vegginn. Þótt bókin hafi hrifið ýmsa og selst jafn vel og vinsælustu rit um nýaldarspeki er líklega óhætt að segja að engin bók hafi kostað jafnmargt fólk lífið. Bókin var nefnilega upphafið að því að skordýraeitrið DDT var bannað, ekki aðeins til stórnotkunar í landbúnaði heldur einnig sem vörn gegn moskítóflugunni sem ber malaríu með sér. Yfir ein milljón manna deyr árlega af malaríu og yfir 300 milljónir veikjast.
Eftir síðari heimsstyrjöldina var ráðist með DDT gegn malaríu í Evrópu og Norður-Ameríku og þegar kom fram á sjötta áratuginn hafði henni verið útrýmt á þessum svæðum. Malarían var hins vegar enn stórt vandamál í þriðja heiminum og er enn. DDT er ekki aðeins ódýrasta vörnin gegn malaríu heldur einnig sú áhrifaríkasta þótt hún eigi ekki við í öllum tilvikum. DDT er eitt af hinum svonefndu þrávirku lífrænu efnum sem getur við óhóflega notkun safnast upp í lífkeðjunni Það er hins vegar með öllu meinlaust manninum og það eru engar vísbendingar um að takmörkuð notkun til sjúkdómavarna geti haft skaðleg áhrif á lífríkið. Umhverfisverndarsinnar komu því hins vegar til leiðar að framleiðslu DDT var hætt á Vesturlöndum og efnið var bannað um 1970. Þá höfðu ríku þjóðir Vesturlanda – þar sem flestar skrifstofur umhverfisverndarsamtaka eru staðsettar – losað sig við malaríu með DDT en ákváðu að koma í veg fyrir að fátækar þjóðir gætu nýtt sér þessa ódýru og öruggu vörn gegn hinum skæða sjúkdómi. Náttúran á nefnilega að njóta vafans, sem var þó enginn í þessu tilviki nema í hugarfylgsnum umhverfisverndarsinna. Sömu umhverfisverndarsinnar og tóku DDT af fátæku þjóðunum hafa vissulega einnig miklar áhyggjur af „offjölgun“ mannkyns. Hér skal hins vegar ekkert fullyrt um það hvort það hefur verið meðvitaður liður í baráttu umhverfisverndarsinna gegn „offjölgun“ í þriðja heiminum að koma í veg fyrir að fátæka fólkið ætti möguleika í baráttunni við malaríu.
Snemma á þessu ári kom út lítil bók sem ber heitið Malaria and the DDT Story eftir Richard Tren og Roger Bate. Helstu niðurstöður höfunda eru einmitt þær að alþjóðasamfélagið hafi að áeggjan umhverfisverndarsinna kostað milljónir manna lífið með einstrengingslegri afstöðu sinni til notkunar DDT. Þar er einnig fjallað um hina svonefndu varúðarreglu (e. precautionary principle): „Umhverfisverndarsinnar telja að við eigum að gæta varúðar þegar við tökum ákvarðanir um tilbúin efni. Varúðarreglan er notuð til að réttlæta takmarkanir á notkun efna á þeirri forsendu að þau geti verið skaðleg umhverfinu. Það eru til nokkrar skilgreiningar á varúðarreglunni. Líklega er skilgreining Greenpeace öfgafyllst: „leyfum engin efni þar til sannað er að þau valdi ekki skaða í umhverfinu“ …. Grænfriðungar líta framhjá þeim jákvæðu afleiðingum sem notkun DDT hefur haft í för með sér fyrir mannkynið. Á meðan þeir gera dauðaleit að vísbendingum um að DDT hafi skaðleg áhrif láta þeir sem þeir hafi gleymt því að DDT hefur bjargað milljónum mannslífa.“
Ef til vill er ekki úr vegi að ljúka þessari umfjöllun um DDT og Rachel Carson með orðum bandaríska hagfræðingsins Thomas Sowells um málið en hann orðar þetta með sínum hætti: „Rachel Carson og umhverfisverndarsinnarnir sem hún veitti innblástur tókst að koma á banni við notkun DDT í hverju landinu á fætur öðru. Fyrir þetta framtak hafa þau uppskorið mikið hól, ekki síst sjálfshól. Engu að síður hefur enginn fjöldamorðingi verið tekinn af lífi undanfarna hálfa öld sem hefur jafnmörg mannslíf á samviskunni og öðlingurinn Rachel Carson. DDT bannið hefur leitt til malaríufaraldurs í þróunarlöndunum sem kostað hefur milljónir mannslífa.“