Menn lenda stundum í skringilegri aðstöðu. Eða koma sér öllu heldur stundum í skringilega aðstöðu. Einn af þessum mönnum er Ögmundur Jónasson alþingismaður, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ögmundur á í starfi sínu sem formaður BSRB að gæta hagsmuna starfsmanna ríkisins. Sem formaður stjórnar LSR á hann að gæta hagsmuna sjóðsfélaga, þ.e. aðallega að reyna að sjá til þess að fjármunir þeirra séu ávaxtaðir með sem skynsamlegustum hætti. Í starfi sínu sem alþingismaður ætti Ögmundur svo að líta til hagsmuna allra en ekki bara sumra eins og í hinum störfunum tveimur. Í starfi sínu sem alþingismaður er Ögmundur líka að berjast fyrir ákveðnum skoðunum og vill að þær fái sem mest fylgi.
Það er með Ögmund eins og suma sem koma sér í þá óheppilegu aðstöðu að þurfa að þjóna fleiri en einum herra að honum hefur gengið illa að samræma hagsmuni þeirra. Hann hefur til að mynda hvað eftir annað notað BSRB í stjórnmálabaráttu sinni. Sem dæmi má taka innflutning BSRB á áróðursmönnum frá hinum ýmsu afkimum hnattarins, pólítískar auglýsingar og útgáfu á pólitísku efni í nafni og á kostnað BSRB. Þetta þjónar ekki hagsmunum þeirra sem neyddir eru til að greiða hluta launa sinna til BSRB, en nýtist Ögmundi og félögum hans í pólitískri baráttu þeirra.
Nýlega hafa þeir atburðir einnig gerst sem benda til að hagsmunaárekstur liti störf Ögmundar fyrir LSR. Þannig hefur LSR – sá eini af stærstu lífeyrissjóðum landsins – neitað að taka þátt í könnunarviðræðum um fjármögnun á álversframkvæmdum í Reyðarfirði. Nú ætlar Vefþjóðviljinn ekki að taka afstöðu til þess hvort lífeyrissjóðir eða aðrir ættu að setja fjármuni í byggingu álvers í Reyðarfirði, en hann leyfir sér þó að fullyrða að fjárfestar á borð við lífeyrissjóði verði að hafa fyrir því fjárhagsleg rök hvort af þátttöku í slíku verkefni verði eða ekki. Þegar litið er til harðrar baráttu Ögmundar og flokks hans gegn álversframkvæmdum verður að teljast ósennilegt að fjárhagsleg rök ein hafi búið að baki því að LSR kaus einn stærstu lífeyrissjóðanna að taka ekki þátt í könnunarviðræðum um fjármögnun. Eða dettur einhverjum í hug að stjórnmálamaðurinn Ögmundur muni sætta sig við að stjórnarformaðurinn Ögmundur styðji byggingu álvers, jafnvel þó niðurstaða könnunar sýndi að fjárfestingin væri ábatasöm?