Laugardagur 28. júlí 2001

209. tbl. 5. árg.

Því er stundum haldið fram að umræðan um aðild Íslands að ESB „hafi aldrei komist á dagskrá“. Þó fór einn stjórnmálaflokkur með baráttu fyrir aðild Íslands að ESB í kosningar árið 1995 og beið herfilegan ósigur. Í öðrum kosningum bauð annar flokkur fram undir kjörorðunum XB ekki EB og er enn starfandi, ólíkt hinum. En ef til vill sér nú fyrir endann á öllum vangaveltum um inngöngu Íslands í ESB, ef til vill kemst umræðan „aldrei á dagskrá“.

Í vikunni lýsti Gordon Brown fjármálaráðherra Bretlands því í breska dagblaðinu Daily Telegraph að ávinningur af því að fella niður allar viðskiptahindranir milli Evrópu og Bandaríkjanna gæti numið um 350 milljörðum Bandaríkjadala á ári. „Lok Kalda stríðsins ættu ekki að veikja sambandið milli okkar. Þvert á móti ætti að leggja áherslu á aukin tengsl á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Rétt eins og NATO hefur verið og er trygging fyrir friði gætu aukin viðskiptatengsl yfir hafið aukið hagsæld“, svo vitnað sé til orða fjármálaráðherrans. Brown undanskildi að vísu landbúnaðarafurðir enda er landbúnaðarstefna Evrópusambandsins algjörlega ósamrýmanleg frjálsum viðskiptum. Það væri engu að síður stórt skref ef viðskiptahindranir gagnvart iðnframleiðslu og þjónustu féllu niður.

Þetta eru áhugaverðar hugmyndir hjá fjármálaráðherra Bretlands, ekki síst í ljósi þess að ýmsir hafa reynt að gera mikið úr „einangrun Bandaríkjanna“ að undanförnu. Þeir hinir sömu hafa reyndar einnig lagt áherslu á að ESB eigi að vera „svar við Bandaríkjunum“ í stað þess að vinna með þeim. Brown virðist hins vegar átta sig á því að hugsun í viðskiptablokkum, eins og ESB, er úrelt og á ekki lengur heima á dagskrá.

Í lok síðasta mánaðar gaf Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, út bókina Lögin, eins og lesendum er sennilega vel kunnugt um. Undanfarnar vikur hefur ritið verið selt þeim sem vilja hér á síðunni. Nú er hins vegar svo komið að bókin er einnig í boði fyrir þá sem veigra sér við að versla um lýðnetið, því tvær ágætar bókaverslanir í Reykjavík hafa hana nú á boðstólum. Geta fjárfestar nú fest kaup á henni í Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar í Austurstræti sem og í hinni ágætu Bókaverzlun Lárusar Blöndals á Skólavörðustíg. Og fyrst minnst er á þessar ágætu verslanir þá má benda öllum áhugamönnum um skynsamleg skrif á að báðar verslanirnar bjóða einnig til kaups bókina Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt, en Vefþjóðviljinn hefur áður leyft sér að mæla sérstaklega með því riti. Lögin geymir athyglisverðar hugleiðingar um útþenslu laganna í þjóðfélaginu og Hagfræði í hnotskurn geymir sennilega skynsamlegustu skrif sem finna má um hagfræðileg málefni á íslensku. Og þótt fleiri tungumál yrðu athuguð.