Fimmtudagur 26. júlí 2001

207. tbl. 5. árg.

„Fólk er alltaf að láta ræna sig. Tökum bara bílalánin sem dæmi.“ Eitthvað á þessa leið mæltist þeim merka manni, Þorvaldi Þorsteinssyni myndlistarmanni í sjónvarpsþættinum „Boðorðin 10“ á sjónvarpsstöðinni Skjá einum á sunnudaginn. „Við erum alltaf að kaupa einhvern óþarfa“ bætti hann við og var auðheyrt að hann bar ekki sérstaklega mikla virðingu fyrir því fólki sem tekur lán til að kaupa sér nýjan bíl eða annan óþarfa. Og því er ekki að neita, það er rétt að margir hafa skuldsett sig talsvert til að hafa ráð á því að eignast nýja bifreið og eflaust hafa ýmsir þeirra keypt sér stærri og dýrari bifreið en þeir mögulega hefðu getað komist af með. Og því stærri – og öruggari sem bifreiðar eru – þeim mun dýrari eru þær, meðal annars vegna öfundarskattana sem settir hafa verið á það fólk sem leyfir sér að kaupa „forstjórajeppa“.

En þetta fólk sem leyfir sér að kaupa sér bifreið og tekur lán til þess, það þarf ekki aðeins að greiða fyrst háa skatta og svo myndarlega vexti af bílalánunum. Nei, það þarf einnig að sitja undir háðsglósum Þorvaldar Þorsteinssonar myndlistarmanns sem segir að það sé bara að láta ræna sig. Og það sé bara að sækjast eftir óþarfa.

Sennilega heldur Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður að það sé bara sér til skemmtunar sem fólk tekur dýr lán áður en það kaupir sér bifreið. Og að bifreiðin sé helber óþarfi. En má þá Vefþjóðviljinn láta þess getið að það kunna að vera ýmsar aðrar ástæður en heimska sem valda því að fólk tekur þessi lán. Fyrir mörgum eru slík lán eina leiðin til að eignast sæmilega búna bifreið. Flestir tækju því líklega fegins hendi ef þeir réðu við að staðgreiða nýja bifreið með eigin fé og þyrftu engin lán að taka. Og ef skattar væru ekki eins háir og þeir enn eru, þá hefðu sennilega fleiri efni á því. Það er nefnilega svo, að áður en fólk getur farið að ráðstafa fé sínu – til dæmis til að kaupa bifreiðar eða annan óþarfa – þá þarf það að greiða fyrir alla eyðslu hins opinbera, alla styrkina sem hið opinbera veitir, öll verkefnin sem hið opinbera sinnir hér og hvar.

Og þegar að þeim kemur, þá vantar ekki frekjuna og tilætlunarsemina í hagsmunahópana. Um daginn mátti til dæmis virða fyrir sér óvenjuskýrt sýnishorn af slíkri frekju. Þá skrifaði hástemmdur myndlistarmaður grein í Morgunblaðið þar sem hann átaldi harðlega að ríkið veitti ekki nægilegu fé til gæluverkefna myndlistarmanna. Ríkið borgar bara ekki nóg undir myndlistarmenn á erlendar sýningar, svo sem „Feneyjatvíæringinn“ sem er óskaplega merkileg sýning, og það er bara ekki sérstakur opinber starfsmaður í því að kynna íslenska myndlistarmenn fyrir útlendingum. Þessi myndlistarmaður, sem auðvitað heitir Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður, vill semsagt taka með valdi peninga af venjulegu fólki og nota þessa peninga til að styrkja myndlistarmenn til utanferða og sýningahalds. En síðan þegar fólk reynir að nýta eftirstöðvar launa sinna – þegar það er búið að borga alla skattana – til að kaupa sér bifreið, þá er horft á það með fyrirlitningu: Það er bara að láta ræna sig. Það er bara að kaupa sér óþarfa.

En Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarmaður átti samt ekki furðulegustu orð þessa sjónvarpsþáttar. Í þættinum var nefnilega að sjálfsögðu rætt við snillinginn Sigríði Þorgeirsdóttur heimspeking sem lét þess getið að „lögmál kapítalismanns [væri] stuldur“. Ekki eignarréttur, frjáls viðskipti og óheft samningafrelsi. Nei nei. „Lögmál kapítalismanns er stuldur.“

Og hafiði það.