Miðvikudagur 25. júlí 2001

206. tbl. 5. árg.

Á hinni svo kölluðu „frétta“stofu Ríkisútvarpsins hafa löngum starfað menn sem hafa það fremur að markmiði að koma skoðunum sínum á framfæri en að flytja hlustendum fréttir. Þessir menn eiga það sameiginlegt að hneigjast til vinstri í stjórnmálum og leyna því ekki. Trúir hugsjónum sínum eru þeir nú sem endranær uppteknir af því að gera Vesturlönd fátækari, því vinstri menn á Vesturlöndum eru einhverra hluta vegna fullir sektarkenndar vegna velgengni landa sinna, þ.e. þeirra landa sem helst hafa búið við markaðshagkerfi. Aðferð vinstri manna þessi árin er að finna upp á hinum ýmsu leiðum til að setja fólki íþyngjandi reglur í nafni umhverfisverndar. Reglurnar hafa ekki endilega neitt með umhverfisvernd að gera og byggja iðulega á hæpnum eða engum vísindarökum, líkt og Kyoto-bókunin. Rökin skipta vinstri menn þó ekki máli því nauðsyn brýtur lög þegar barist er við sektarkenndina. Það má til að mynda glöggt sjá á framgöngu þeirra í Genúa, Gautaborg, Seattle og víðar. Ekki er ástæða til að amast við því að vinstri menn komi þessum sjónarmiðum sínum á framfæri við annað fólk. Það er ekki nema sjálfsagður réttur þeirra. En réttur þeirra nær þó hvorki til þess að eyðileggja eigur fólks og hætta lífi þess í götubardögum erlendis né til þess að flytja mál sitt á kostnað annarra hérlendis. Þessu hafði skríllinn á götum Genúa engan skilning á og þeir sem stunda vinnu á kostnað skattgreiðenda í Efstaleitinu í Reykjavík virðast ekki skilja þetta heldur.

Til marks um þetta skilningsleysi má hafa „frétt“ sem flutt var í Ríkisútvarpinu á Rás 1 í hádeginu í gær. Þarna var ekki um að ræða að sögð væri frétt af niðurstöðu fundar um Kyoto-bókunina heldur var skattgreiðendum lesinn einhliða áróðurspistill stuðningsmanns bókunarinnar. Sem dæmi má taka eftirfarandi klausu úr pistlinum: „Það má líta á samkomulagið sem sigur fyrir samningafærni Evrópumanna um leið og það gefur Bandaríkjunum langt nef. Þau trúðu því í mars að Kyoto-bókunin væri aðeins froða og að ef þau snerust gegn henni myndi hálfur heimurinn fylgja þeim eftir.“

Nokkru síðar í pistlinum var höfundurinn orðinn enn ákafari og lét þá frá sér eftirfarandi gullkorn – í fullu hlutleysi auðvitað: „37 ríkustu lönd heims, þau sem menga andrúmsloftið mest, gengust inn á það að draga úr menguninni um 1% til 3%. Það eru öll ósköpin. Það er hinn mikli sigur. Vísindamenn segja að draga þurfi úr útblástursmengun um 60% til 80% svo að okkur standi ekki hætta af loftlagsbreytingum. En samningurinn verður samt að teljast þýðingarmikil byrjun.“

Þessi framsetning er með miklum ólíkindum, en þar fyrir utan eru fullyrðingarnar hæpnar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hvaða „vísindamenn“ hafa sagt að draga yrði jafn mikið úr útblæstri og þarna er nefnt? Það eina sem vísindamenn virðast vera sammála um er að þeir vita lítið um afleiðingar útblásturs af manna völdum. Þeir hafa hins vegar töluverða hagsmuni af að hræða fólk, eins og bent var á síðast liðinn laugardag hér í Vefþjóðviljanum, en vinstri sinnaðri fréttastofu Ríkisútvarpsins virðist algerlega fyrirmunað að sjá þá staðreynd eða nokkra aðra sem varpa kynni skugga á baráttuna gegn velferð Vesturlanda.