Gærdagurinn var lærdómsríkur fyrir áhugamenn um umhverfismál. Íslendingar lærðu enn einu sinni á fundi alþjóða hvalveiðiráðsins að hið svonefnda „alþjóðasamfélag“ er ga-ga þegar kemur að umhverfismálum. Á annarri ráðstefnu alþjóðasamfélagsins í Bonn voru saman komnir mestu ferðalangar síðari tíma en þeir hafa haldið heimsmeistaramót í lönguvitleysu frá því í Kyoto árið 1997 vítt og breitt um heiminn og sér ekki fyrir endann á því. Þeir sem hafa yfirhöndina á báðum ráðstefnunum halda því fram málstaður þeirra njóti „almennrar viðurkenningar vísindasamfélagsins“. Allar hvalategundir eru í útrýmingarhættu og við erum að stikna vegna gróðurhúsaáhrifa.
Kyoto samningurinn snýst í stuttu máli um að leggja mörg þúsund milljarða króna kostnað á hinn vestræna heim til að draga úr útblæstri koltvísýrings en mannskepnan er talin gefa frá sér um 2% af því sem streymir út á móti 98% frá náttúrunni. Kenningar eru um að þetta framlag mannsins valdi hlýnun loftslags. Og eins og alltaf þegar maðurinn er talinn hafa áhrif á umhverfið eru þau áhrif að sjálfsögðu talin slæm. En hvorugt er þó vitað með þeirri vissu að það réttlæti kostnaðinn. Það er ekki vitað með vissu hvort maðurinn hefur áhrif á loftslagið, hversu mikil ef nokkur, og enn síður hvort slík áhrif yrðu til góðs eða ills. – Og svo bendir flest til þess að þótt verstu spár rætist sé ódýrara að takast á við afleiðingarnar en að sporna gegn þeim. Það er raunar merkilegt að flestar ríkisstjórnir ESB landanna segjast tilbúnar til að leggja í þennan mikla kostnað vegna hættu sem menn vita ekki hvort er til staðar. Þær eru hins vegar andvígar því að Bandaríkin komi upp eldflaugavarnakerfi gegn hættu sem vissulega er til staðar. En eldflaugar geta bæði farið á loft fyrir slysni frá lýðræðisríkjum og svo eru nokkur ríki sem hefðu ekkert á móti því að senda slíkar flaugar á loft af ráðnum hug.
Þrátt fyrir að liðin séu fjögur ár frá því Kyoto samningurinn var gerður hafa hvorki ríki Evrópusambandsins né önnur iðnvædd staðfest hann. Og fæst ESB ríkjanna hafa staðið við Ríó sáttmálann frá 1992 um takmarkanir á útblæstri sömu lofttegundar. Ráðamenn ESB ríkjanna hafa hins vegar úthrópað forseta Bandaríkjanna fyrir að fara að kosningastefnu sinni og samþykkt öldungadeildar Bandaríkjaþings um að Bandaríkin hafni Kyoto samningnum. Öldungadeildin hafnaði Kyoto með 95 atkvæðum gegn engu. Bandaríkin, sem gefa frá sér mestan koltvísýring allra þjóða, verða því ekki aðilar að þeirri útgáfu Kyoto samningsins sem samþykkt var í Bonn í gær og engar takmarkanir verða settar á útblástur í fjölmennustu ríkjum heims, Kína og Indlandi. Þróunarlöndin verða raunar alfarið undanskilin sem getur leitt til aukins útblásturs.
Undanþága þróunarríkjanna mun meðal annars þýða að álver fara fremur til Kína þar sem þau verða kynt með kolum en til landa á borð við Ísland þar sem orka fallvatna knýr þau – þ.e.a.s ef Ísland þarf að fara eftir meginefni samningsins. Kyoto samningurinn – ef einhver fer eftir honum – mun almennt beina orkufrekum iðnaði frá Vesturlöndum, þar sem nýjasta tækni og mengunarvarnir eru til staðar, til þróunarlandanna þar sem útblástur gróðurhúsalofttegunda er meiri frá sömu framleiðslu.