Á dögunum vildi það óhapp til, að Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, tapaði mikilvægum kappleik við albanskt stórlið og var þar með þátttaka KR-inga í meistarakeppni Evrópu úti þetta árið. Eru þetta talsverð vonbrigði þar sem önnur úrslit hefðu fært þeim rétt til að leika við enn frægara tyrkneskt lið og hefðu því fylgt miklar tekjur inn í landið auk þess sem leikur við hina frægu Tyrki hefði verið íslenskri knattspyrnu mikil lyftistöng. En því miður, KR-ingar eru ekki nógu góðir og því fór sem fór.
Og þess vegna hefur Vefþjóðviljinn fengið afbragðs hugmynd: Hér þarf ríkið að koma að. Augljóst er, að án opinbers stuðnings mun íslensk knattspyrna ekki standast samanburð við erlenda; vilji menn að á Íslandi verði stunduð knattspyrna af einhverri alvöru þá þarf hið opinbera að koma að málum. Ríkið ætti því að færa fremstu knattspyrnufélögunum, t.d. KR, Akranesi og Fylki, myndarlegar fjárupphæðir árlega sem nota mætti til að kaupa leikmenn. Og það myndi svo skila sér margfalt til baka. Með erlendar stjörnur innanborðs myndi íslenskum félögum vegna svo vel í alþjóðlegri keppni að gjaldeyristekjur myndu streyma inn í landið. Og erlendir leikmenn sem hingað kæmu myndu eyða hér launum sínum og það myndi skapa gríðarlegan hagvöxt. Þess vegna ætti ríkið ekki aðeins að styrkja bestu félögin til leikmannakaupa, heldur einnig endurgreiða erlendu stjörnunum hluta af tekjuskattinum sem þær greiddu hér.
En bíðum aðeins við. Er þessi hugmynd ekki tóm della? Á ríkið að nota skattpeninga til að hjálpa tilteknum mönnum við að græða af tómstundagamni sínu? Er sanngjarnt að skattleggja venjulegt fólk bara af því að einhverjir aðrir vilja reka hér fótboltalið? Er þetta ekki taumlaus frekja í þeim sem telja sjálfa sig og sín áhugamál svo merkileg að rétt sé að neyða annað fólk til stuðnings? Jú, það er reyndar alveg rétt. Þessi tillaga er tóm della og til marks um frekju og tilætlunarsemi þeirra sem hafa áhuga á fótbolta. Og Vefþjóðviljinn leggur þetta vitaskuld ekki til í nokkurri alvöru. Hann er meira að segja hálf hræddur við að nefna svona hugmyndir: Það er nefnilega aldrei að vita nema einhver taki undir þær í alvöru.
Því svona delluhugmynd, hún er ekki mikið verri en til dæmis allir styrkirnir til kvikmyndagerðar á Íslandi. Eða eru þeir ekki rökstuddir með því að án þeirra verði engin myndarleg kvikmyndagerð á Íslandi? Er ekki alltaf verið að segja að í raun „skili styrkirnir sér til baka“ þegar erlent fé komi svo inn í myndirnar sem hið opinbera fjármagnar að miklu leyti? Og er ekki búið að ákveða að endurgreiða erlendum kvikmyndagerðarmönnum skatta sem þeir kunna að greiða hér á landi? Sumir menn vilja endilega að hér sé stundaður frábær fótbolti. Aðrir vilja að hér séu spilaðar sinfóníur, gerðar dýrar kvikmyndir og tefld skák. Og allt er þetta í góðu lagi. Svo lengi sem menn borga sjálfir fyrir þessar óskir sínar en láta skattgreiðendur í friði.