Laugardagur 7. júlí 2001

188. tbl. 5. árg.

Það var frétt í Fréttablaðinu í gær. Sem er líklega eins gott, en látum það vera. Í gær var sko stórfrétt á ferðum. Það verður nefnilega opið hús hjá Nesjavallavirkjun á morgun. Og um þetta var gerð stór frétt með glæsilegri litmynd og var litmyndin ein stærri en allar aðrar fréttir á síðunni. Sem kannski var ekki undarlegt því myndefnið var ekki af verri sortinni. Nei, engar leiðinda náttúrustemmningar, bara stór og glæsileg litmynd af Alfreð Þorsteinssyni, stjórnarformanni Orkuveitunnar og Línu.nets.

Og þetta var það helsta í Fréttablaðinu í gær. Nema auðvitað auglýsingarnar, það voru nokkrar auglýsingar. Ætli verðmætasta auglýsing sem dagblað selur sé ekki baksíðan? Þar var stór og mikil auglýsing frá fyrirtæki sem auglýsir ítrekað í Fréttablaðinu: Línu.neti. Næst verðmætasta auglýsingasíðan, ætli það sé ekki síða 3? Þar var heilsíðuauglýsing. Frá fyrirtæki sem á í blóðugri samkeppni við marga keppinauta og þarf því að auglýsa grimmt í Fréttablaðinu: Orkuveitunni.