Föstudagur 6. júlí 2001

187. tbl. 5. árg.

Því er stundum haldið fram að eina leiðin til að lækka vöruverð á Íslandi sé að Íslendingar gangi í ESB. Ef til vill yrði aukið frelsi í innflutningi til Íslands frá löndum innan ESB með aðild að sambandinu en ef til vill yrði bara samið um undanþágur. Ísland er þrátt fyrir allt með „fríverslunarsamning“ við ESB en gagnkvæmir tollar, boð og bönn eru engu að síður til staðar.

Í raun kemur frelsi í innflutningi til Íslands aðild að ESB ekki við. Íslendingar geta hvenær sem er fellt niður innflutningstakmarkanir, vörugjöld og skatta sem draga úr samkeppni innanlands. Slík ákvörðun þarfnast hvorki aðildar að ESB, Bandaríkjunum, Samveldinu, Samtökum Afríkuríkja né öðrum ríkjabandalögum. Þrátt fyrir aðildina að evrópska efnahagssvæðinu gætu Íslendingar sennilega tekið upp einhliða fríverslun þótt EES samningurinn feli í sér ýmsar tæknilegar viðskiptahindranir gagnvart þriðja aðila. Tilskipanir ESB um vörumerkingar, umhverfismál, vinnumarkað og fleira eru dæmi um tæknilegar hindranir sem þriðji aðili mætir þegar hann vill eiga viðskipti við Ísland.

Lítið hefur farið fyrir svonefndum evrópusinnum á síðustu misserum. Einhvern tímann höfðu þeir með sér félagsskap sem skipaður var mönnum víða að úr hinu pólitíska litrófi og víða að úr þjóðfélaginu. Nú er félagsskapurinn orðinn lítill sértrúarsöfnuður. Annars vegar eru þar skriffinnar úr evrópska stofnanakerfinu og hins vegar þeir sem dreymir um að verða tannhjól í reglugerðaverki ESB.
Fyrir nokkrum árum hafði jafnvel einn íslensku stjórnmálaflokkanna aðild að ESB á stefnuskrá sinni en nú sverja allir flokkar af sér aðild. Litlu mátti muna að flokkurinn sem hafði málið á stefnuskrá sinni þurrkaðist út í kosningum árið 1995 og þótti flokksmönnum ekki meira gagn af honum eftir það en svo að þeir gáfu hann hóp úr Alþýðubandalaginu fyrir næstu kosningar.