Í gær voru ekki aðeins liðin 225 ár frá yfirlýsingu Bandaríkjanna um sjálfstæði frá Englandi heldur einnig 175 ár frá láti Thomas Jeffersons eins af höfundum Sjálfstæðisyfirlýsingarinnar. Jefferson var lengi einn af mest metnu forsetum Bandaríkjanna en hin síðari ár hefur heldur hallað á Jefferson vegna gamals húsgangs um faðernismál.
Jefferson hefur lengi verið sakaður um að hafa barnað Sally Hemings sem var þræll hans á þeim tíma. Flestir fræðimenn sem fjallað hafa um Jefferson hafa hins vegar hafnað þessari kenningu. Meðal þeirra var sagnfræðingurinn Joseph Ellis. Í bók sinni um Jefferson American Sphinx sem kom út árið 1996 taldi Ellis getgátur um samband Jefferson og Hemings langsóttar.
En árið 1998 er Bill nokkur Clinton, eftirmaður Jefferson í starfi, sakaður um að hafa sagt ósatt fyrir rétti. Þá vildi svo til að birtar voru í snatri niðurstöður úr DNA rannsókn á faðerni sonar Sally Hemings. Niðurstöðurnar birtust í tímaritinu Nature á sama tíma og forsetinn átti yfir höfði sér ákæru fyrir meinsæri. Niðurstöðurnar sýndu þó einungis að yngsti sonur Sally Hemings, Eston, hefði líklega verið sonur karlmanns úr Jefferson fjölskyldunni en þeir voru yfir 20 í Virgina á þessum tíma. Eugene Foster sem stjórnaði rannsókninni viðkenndi að niðurstöðurnar bentu ekki frekar á Thomas Jefferson en yngri bróður hans Randolph.
Joseph Ellis var andvígur yfirheyrslunum yfir Clinton og notaði mál Jeffersons til að rétta hlut Clintons eða öllu heldur til að benda á að hann væri ekki verri en Jefferson. Fyrir þremur mánuðum kom hins vegar út 550 síðna skýrsla hóps fræðimanna um Jefferson þar sem tekið var á þessi atriði. Allir nema einn lýstu yfir miklum efasemdum um kenninguna um að Eston hefði verið sonur Thomas Jeffersons.