Minnimáttarkennd leggst misjafnlega þungt á fólk. Sumir sligast með það alla ævi að þeir sjálfir og það sem þeir gera sé töluvert lakara en það sem aðrir gera eða hefðu getað gert. Aðrir eru heldur betur settir og telja sig og verk sín ekki miklu síðri en það sem aðrir geta státað af og verkin jafnvel hreint prýðileg á köflum. Svo eru þeir til sem eru þeirrar skoðunar að það sem þeir hafa fram að færa sé svo óskaplega merkilegt og yfir það hafið sem aðrir fást við, að öðrum beri skylda til að styrkja þá. Þeir krefjast bæði styrks til eigin framfærslu og til að halda áfram framleiðslu – og jafnvel sýningu – hinna merku verka. Nokkrir fulltrúar síðast nefnda hópsins hafa haft sig nokkuð í frammi í fjölmiðlum síðustu daga og er ástæðan sú að menntamálaráðuneytið hefur, að því er þeir álíta, ekki staðið sig í stykkinu við að styrkja þá og lyfta þeim á þann stall sem þeim þykir hæfa eigin ágæti.
Staðreyndin er nefnilega sú að það er löngu orðið ljóst að engu skiptir hversu miklu skattfé er varið til menningarmála, þeir sem lifa á þessu fé verða aldrei ánægðir og finnst aldrei að nóg sé gert. Þeir heimta sífellt meira. |
Fjölmiðlaumræða þessi hefur spunnist vegna myndlistarsýningar sem kölluð er Feneyjatvíæringurinn og er að sögn menningarpenna hjá Morgunblaðinu „eina stóra alþjóðlega listsýningin þar sem íslenskur listamaður fær tækifæri til að sýna meðal fulltrúa allra þeirra þjóða sem við berum okkur gjarnan saman við.“ Í þeirri grein sem hér er vitnað til og birtist 17. júní síðast liðinn fer þessi menningarpenni mikinn í gagnrýni á íslensk stjórnvöld og telur yfirvöld menningarmála standa sig með afbrigðum illa. Menningarpenninn nefnir svo dæmi séu nefnd, að yfirvöld hafi ekki veitt ríkulega af mat og drykk eins og ýmsir aðrir á svæðinu. Veitingarnar við opnunina hafi verið „neyðarlega naumar“. Þar hafi að vísu verið íslenskt vatn sem vakið hafi lukku í hitanum, en þar fyrir utan hafi ríkisvaldið aðeins útvegað fáeinar flöskur af „volgu hvítvíni“. Ef ekki hefði komið fram í grein menningarpennans að ríkinu láðist að senda sérstakan fulltrúa til að flytja listamanninum lofgjörð í formi ávarps í íslenska básnum hefðu lesendur dregið þá ályktun að menntamálaráðherra hefði sjálfur af fjandskap sínum við íslenska list hitað upp hvítvínið svo mönnum svelgdist á framlagi Íslands. Hið eina sem bjargaði íslensku sýningunni frá algerri skömm, ef marka má menningarpennann, var að listamaðurinn og vinir hans höfðu sjálfir „af mikilli forsjálni“ keypt „brennivín“ til að koma í veg fyrir „vandræðalegan skort“.
Skelfilegt er til þess að vita að svo mjög sé þrengt að íslenskum listamönnum erlendis að þeir skuli ekki einu sinni fá brennivín frá ríkinu til að bjóða gestum sínum. Það var þó „til að bíta höfuðið af skömminni“, eins og menningarpenninn orðaði það, „að í matarsamsæti til heiðurs listamanninum að kvöldi opnunardagsins varð blaðamaður þess áskynja að þessir heiðursmenn (að listamanninum undanskildum), sem og aðrir sem verkefninu lögðu beint lið með einum eða öðrum hætti, urðu þá einnig að greiða mat sinn og drykk sjálfir.“ Listamaðurinn slapp sum sé við að greiða eigin mat, en að íslenskir áhugamenn um listsýningar skuli sjálfir þurfa að greiða fyrir næringu sína á erlendri grundu er íslenskum skattgreiðendum og yfirvöldum menningarmála til minnkunar að áliti menningarpennans.
Að vísu kemur fram, bæði hjá menningarpennanum og í pistli menntamálaráðherra um þessa sýningu, að skattgreiðendur greiddu nokkrar milljónir króna til að íslenskur listamaður færi utan að sýna list sína. En það er bara ekki nóg. Svo gagn sé að styrknum og hann verði til annars en umkvörtunar og vandlætingar þeirra sem gera betur en meðaljóninn, þurfa þeir líka að fá að staupa sig á kostnað almennings. Við minna verður ekki unað.
Fyrir utan skrif menningarpennans má nefna að listarmaður nokkur varpaði fram þeirri spurningu í Morgunblaðinu 6. þessa mánaðar hvað gera ætti við brjálaða listamenn. Nú hafa sjálfsagt einhverjir svör á reiðum höndum, en látum það liggja milli hluta og skoðum efni greinarinnar eftir því sem kostur er á. Tilgangur höfundar er að fagna grein menningarpennans og upplýsa lesendur um þá skoðun sína að úttektin hitti „svo kirfilega í mark að í raun er litlu við að bæta“. Hann gerir það þó og telur upp nokkrar sýningar sem haldnar eru um víðan heim þar sem Íslendingar eiga ekki fulltrúa. Og hvernig stendur á þessu? Jú, menntamálaráðuneytið „virðist einfaldlega ekki vera í sambandi við nokkurn mann sem máli skiptir í alþjóðlegum myndlistarheimi“. Og listamaðurinn kvartar yfir því að slíkur maður hafi ekki sést í vinnustofum íslenskra myndlistarmanna, kostaður af íslenskum skattgreiðendum auðvitað án þess að það sé tekið fram. Svo vantar líka fleiri diplómata, kynningarfulltrúa, „lobbýista“ og slíka kappa, sem aðrar þjóðir hafa á að skipa.
Allt er sum sé með hörmulegasta móti í myndlistarmálum hér á landi og vandinn er auðfundinn. Hann er sá að menntamálaráðuneytið hefur ekki farið nógu djúpt í vasa skattgreiðenda til að halda „brennivíni“ að gestum á sýningum Íslendinga erlendis, það hefur ekki sent ráðuneytismenn utan til að halda mærðarfullar ræður við opnun sýninga og það hefur ekki boðið alþjóðlegum myndlistarhöfðingjum til landsins að skoða vinnustofur íslenskra myndlistarmanna. Menntamálaráðuneytið, ásamt öðrum ráðuneytum, fer að vísu nógu djúpt í vasa skattgreiðenda til að þeir finna rækilega fyrir því í hvert sinn þegar þeir fara út í búð eða greiða tekjuskatt, en það er bara ekki nóg. Og það er heldur ekki nóg að ráðuneytið haldi fjölda listamanna á launum árið um kring, greiði niður sýningar þeirra bæði hér á landi og erlendis og kosti jafnvel hluta veitinganna sem listamennirnir vilja bjóða gestum sínum. Nei, þá eru veitingarnar snautlegar og jafnvel volgar.
Staðreyndin er nefnilega sú að það er löngu orðið ljóst að engu skiptir hversu miklu skattfé er varið til menningarmála, þeir sem lifa á þessu fé verða aldrei ánægðir og finnst aldrei að nóg sé gert. Þeir heimta sífellt meira. Sé þeim fengin ein milljón króna heimta þeir tvær til viðbótar. Eða, svo notuð sé gömul líking; rétti skattgreiðendur þeim litla fingurinn er handleggurinn farinn af við öxl áður en við er litið. Þegar svo er komið að kröfunum verður aldrei fullnægt og sífellt lengra sé gengið hlýtur eina svar skattgreiðenda að vera að beita sér fyrir því að ríkið dragi sig algerlega til baka og leggi af alla styrki á þessu sviði.