Verðmæti íslensku krónunnar hefur verið til umræðu undanfarnar viku. Krónan hefur fallið töluvert í verði og eru sjálfsagt ýmsar ástæður, skiljanlegar og óskiljanlegar, fyrir því. „Sérfræðingarnir“ hafa haft í nógu að snúast við að útskýra stóra krónumálið en engin sameiginleg niðurstaða er fengin í því máli og mun sjálfsagt aldrei fást. Sumir atvinnurekendur og „sérfræðingar“ hafa svo saman sungið í síbylju sönginn um nýjan gjaldmiðil. Og einhverra hluta vegna er það evran sem öllu á að bjarga, og það þó hún sjálf virðist tæpast vera sjálfbjarga. Að mati evrusinna er nærtækast að taka upp evruna, „af því bara“. Bandaríski dollarinn er varla til umræðu. Það er því athyglivert að í öllum þeim fréttum og allri umræðu um gengislækkun íslensku krónunnar er alltaf klykkt út með stöðunni á krónunni gagnvart dollarnum. Þannig var, samkvæmt frétt mbl.is í gær, „gengi Bandaríkjadals skráð 103,99 krónur en var 104,74 krónur við opnun í [gær]morgun og hefur því verið að veikjast gagnvart krónunni.“
Hvaða verðmæti evran hefur þykir að vonum ekki fréttnæmt. Sé vilji fyrir hendi að leggja krónuna niður og taka upp annan gjaldmiðil væri sjálfsagt nærtækra og heppilegra að taka upp Bandaríkjadal en evru. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en hér má nefna að það er hægara sagt en gert að taka upp evruna án þess að ganga í Evróupusambandið. Dalurinn hefur hins vegar sannað sig sem gjaldmiðill og hann er þegar notaður í nokkrum löndum utan Bandaríkjanna. Þvoi ESB-sinnar evruglýjuna úr augunum munu þeir væntanlega taka undir þetta. Þeir munu þá líka taka undir að frekar en að „taka á dagskrá“ aðild að ESB er rétt að „taka á dagskrá“ aðild að fríverslunarsvæði Norður-Ameríku, NAFTA. Þátttaka í NAFTA krefst ekki fullveldisafsals eða afsals yfirráða yfir fiskimiðum og stuðlar að fríverslun á heilbrigðari forsendum en innganga í ESB.
Fyrir áhugamenn um starfsframa í höfuðstöðvum ESB eða í útibúi Íslands í Brussel hefur aðild að NAFTA þó vissulega ekki sömu kosti og innganga í ESB.