Miðvikudagur 27. júní 2001

178. tbl. 5. árg.

Frédéric Bastiat (1801 - 1850)
Frédéric Bastiat (1801 – 1850)

Eins og getið var um í síðasta helgarsproki verða í lok þessarar viku liðin 200 ár frá fæðingu Frédéric Bastiat. Af því tilefni mun Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, gefa út í íslenskri þýðingu þekktustu bók hans, Lögin. Þar til Lögin koma út geta menn ornað sér við lestur Bænaskrárinnar eftir Bastiat sem hann ritaði fyrir hönd kertagerðarmanna, ljósastauraframleiðenda og fleiri sem þurfa vernd fyrir utanaðkomandi samkeppni.

„Það verða nú að vera einhverjar reglur,“ segir fólk gjarna þegar það reynir að rökstyðja einhverja af þeim óþörfu reglum sem settar hafa verið um mannlífið. Sumt fólk er nefnilega orðið svo vant því að ríki og borg setji því skorður að því finnst nánast óhugsandi að hlutirnir geti gengið ágætlega án þess að reglur séu fyrir hendi. Að fólk geti án reglna og án alvarlegra árekstra komið sér saman um hvernig því beri að haga sér hvert gagnvart öðru. Þó er það nú svo að flestar reglur sem fólk fer eftir í samskiptum sín á milli eru óskráðar og sem betur fer dettur engum manni í hug að setja opinberar reglur um það til að mynda að fólk víki hvert fyrir öðru á götu, að fólk biðjist afsökunar takist það ekki og líka að fólk hrópi ekki ókvæðisorð að næsta manni jafnvel þó honum verði það á að þvælast aðeins fyrir á gangstéttinni. Eitt og annað af þessu tagi eru óskráðar samskiptareglur sem gera mönnum kleift að lifa mörgum saman í flóknu samfélagi og eins og fyrr segir dettur sem betur fer engum í hug að settar séu um þetta reglur. En það er margt sem verður reglunum að bráð og eitt af því er hversu lengi fólk má dvelja í húsum annarra. Nú hafa (aftur) verið settar reglur um afgreiðslutíma veitingastaða um helgar og ber þeim nú að loka klukkan hálf sex á morgnana laugardag og sunnudag, í stað þess að mega vera opnir allan sólarhringinn.

Þessi regla ber það með sér að vera svona „það verða nú að vera einhverjar reglur“-regla. Ástandið í miðbænum á nóttinni um helgar hefur ekki verið verra en áður eftir að afgreiðslutími var gefinn frjáls og jafnvel betra að ýmsu leyti. Þeir sem fara um miðbæinn á þeim tíma finna muninn greinilega frá því sem áður var þegar öllum var rutt út á götu klukkan þrjú. Aðrir sem finna muninn eru nágrannar miðbæjarins, því hávaði í hliðargötum er ekkert á við það sem var. Líklega hafa borgarráðsmenn, þ.e. þeir sem settu nýju regluna, líka áttað sig á að ástandið hefur batnað til muna, en þeir hafa þó ekki haft bein í nefinu til að standa gegn framangreindri reglu-reglu kenningu. Þegar reglu-reglu fólkið fór að biðja um „einhverja reglu“ var gefið eftir og þessi furðulega regla um afgreiðslutíma til klukkan hálf sex sett.

Næst þegar reglu-reglu fólkið fer af stað og biður um „einhverja reglu“, hvernig væri þá að setja reglu um að nýjar reglur gildi aðeins fyrir reglu-reglu fólkið en hinir geti fengið að vera í friði.