Mánudagur 25. júní 2001

176. tbl. 5. árg.

Schwarzenegger við öllu búinn
Schwarzenegger við öllu búinn

Nokkur hefð er fyrir því að leikarar og aðrir þátttakendur í skemmtanaiðnaði Hollywood styðji demókrata fremur en repúblíkana. Frá þessu eru vissulega nokkrar undantekningar. Svonefndir friðarsinnar væru til dæmis líklegir til að hugleiða ástæður þess og jafnvel leggja út af því greindarlegar kenningar um varnarmál að Arnold Schwarzenegger, Clint Eastwood og Bruce Willis hafa stutt repúblíkana en Burt Reynolds og Barbara Streisand demókrata.

Hið mikla traust sem Hollywood liðið ber til demókrata er þó ekki gagnkvæmt. Á dögunum kynnti varaforsetaefni þeirra frá síðasta ári, Joe Lieberman, frumvarp í öldungadeild Bandaríkjaþings til höfuðs dómgreindarskorti í röðum kvikmyndaframleiðenda. Frumvarpinu, sem hann hyggst leggja fram, er ætlað að taka á markaðssetningu ofbeldismynda sem talin er beinast að börnum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hægt verði að sekta þau fyrirtæki sem merkja myndir sínar óhæfar til sýningar fyrir börn en beina auglýsingum sínum um myndirnar engu að síður til barna.

Formaður kvikmyndaframleiðenda hefur hins vegar bent á að um leið og fyrirtækin eigi slíkar sektir yfir höfði sér hætti þau að flokka myndir sem óhæfar til sýningar fyrir börn. Lieberman hefur ritaði George W. Bush forseta bréf og beðið hann um stuðning við frumvarpið. Viðbrögðin frá Hvíta húsinu í þessu máli hafa verið á þá leið að stjórnvöld eigi að vinna með kvikmyndaframleiðendum, fremur en að skipa þeim fyrir, til að finna leiðir til að auðvelda foreldrum að koma í veg fyrir að börn komist í ofbeldismyndir. Þessi viðbrögð koma ef til vill ekki á óvart þegar afstaða forsetans til atvinnulífsins hingað til er skoðuð, hvort sem menn í viðkomandi atvinnugrein hafa stutt hann eður ei í kosningum.