Þriðjudagur 19. júní 2001

170. tbl. 5. árg.

Í gær mátti heyra í fréttum að ofbeldi færi vaxandi í miðbænum. Að vísu virtist þessi skoðun fremur byggð á „tilfinningu“ einhverra manna en staðreyndum. En látum sem svo að ofbeldi hafi vaxið undanfarið. Fyrir rétt rúmu ári kynnti lögreglan hróðug árangur af því að eftirlitsmyndavélar voru settar upp í bænum. Var talið að ofbeldi hefði minnkað undir auga myndavélanna. Aðrir bentu á að á ofbeldið minnkaði í kjölfar fjölgunar á nektardansstöðum í miðbænum og rýmri afgreiðslutíma vínveitingahúsa. Nú hefur ofbeldið hins vegar aukist á nýjan leik, að því er lögreglan segir, og það er auðvitað „meiri harka“ í ofbeldinu en áður. Ekki skal fullyrt hér að kvikmyndataka yfirvalda hafi þessi áhrif á mannskapinn til hins verra en ef til vill er nú í fyrsta sinn hægt að sjá samhengi milli kvikmynda og ofbeldis, þó ekki það samhengi sem vandamálafræðingar hafa lengst rætt um.

En eftirlitsmyndavélar hins opinbera nema fleira en þá sem vilja stæla vöðvana á kostnað samferðamanna sinna. Flest af því sem auga þeirra nemur er lögleg hegðun hins almenna manns. Um þetta atriði sagði einmitt hér í blaðinu í fyrra: „Eftirlitsmyndavél gerir hinsvegar engan greinarmun á athöfnum einstaklinganna. Af öllum þeim sem lenda innan sjónsviðs vélanna eru því til skráðar heimildir. Með öðrum orðum, lögregluþjónn á vakt í miðbæ Reykjavíkur skrifar ekki skýrslu um hvern einasta einstakling sem þangað leggur leið sína en það gerir hinsvegar myndavélin. Notkun eftirlitsmyndavéla jafngildir því í raun tilefnislausri lögreglurannsókn á fjölda einstaklinga en forsenda slíkra rannsókna hefur hingað til verið sú að sá sem rannsókninni sætir hafi gefið nægjanlegt tilefni til að réttlæta rannsóknina. Það mikla gagnamagn sem verður til með þessum tilefnislausu rannsóknum verður þannig hluti af skjölum lögreglunnar. Þessum gögnum getur lögreglan svo beitt síðar meir í misjöfnum tilgangi. Þetta er ekki síst ógnvænlegt í ljósi þess að meðferð trúnaðarupplýsinga um einstaklinga í meðförum hins opinbera hefur vægast sagt verið ábótavant og að fram til þessa hefur það verið regla fremur en undantekning að fyrirheit um trúnað við einstaklinginn hafa verið rofin.“

Annars hljóta nú þeir sem komnir eru nokkuð af unglingsárunum og muna þau átök sem áður fyrr urðu stundum milli æskufólks í Reykjavík að taka sögum um aukið ofbeldi með nokkrum fyrirvara. Um síðustu helgi voru bæði föstudag og laugardag haldnir þrumandi rokktónleikar fyrir stútfullri Laugardalshöll. Hljómsveitin sem framleiddi hávaðann spilar rokktónlist af því tagi og er með þess konar sýningu fyrir áhorfendur, að einhvern tímann hefðu herlegheitin dugað til að æsa lýðinn svo upp að flöskur hefðu flogið og jafnvel hnefar með. En eftir að tónleikunum lauk og ungdómurinn hafði hoppað og hrópað í Höllinni tímunum saman, lallaði hann út fyrir sallarólegur og ekki var að sjá að nokkrum manni dytti í hug að stofna til leiðinda af nokkru tagi. Ef þetta má vera til einhvers marks um þróun ofbeldis í höfuðborg landsins þá þarf ekki að hafa af því þungar áhyggjur.