Miðvikudagur 20. júní 2001

171. tbl. 5. árg.

Mikil ógn vofði yfir landsmönnum í gær, en þá stóð til að á miðnætti færu fréttamenn ríkisins (já, ótrúlegt en satt þá eru til menn sem flytja fréttir ríksins) í tveggja daga verkfall. Almenningur var skelfingu lostinn yfir þessari vá, því hann sá fram á að þessa tvo daga gæti hann ekki aflað sér frétta nema með því að horfa á sjónvarp, hlýða á hljóðvarp, vafra um Netið eða lesa dagblöð. Honum væru sum sé allar bjargir bannaðar að þessu leyti. En þá gerðust hin undursamlegu tíðindi að fréttamenn ríksins sáu sig um hönd, hættu við verkfall og sömdu hið snarasta rétt fyrir miðnætti. Þó almenningur hafi auðvitað verið í öngum sínum yfir að mega ekki hlusta á fréttir ríkisins næstu tvo daga eru skýringarnar á því að ríkisfréttamennirnir sömdu ef til vill þær að þeir trúa því ekki að nokkur maður hafi talið sér ógnað vegna þessa verkfalls. Ef til vill hafa þessir ríkisstarfsmenn áttað sig á að líklega yrði þess enginn maður var ef þeir hyrfu af skjánum eða hljóðnuðu í tvo daga. Og þeir sem tækju eftir breytingunni sæju jafnvel að þeir hafa enga þörf fyrir að láta ríkið mata sig á fréttum og myndu eftir þessa reynslu fremur vilja spara sér nauðungargjöld/skatta Ríkisútvarpsins en fá fréttir ríkisins bornar í barmafullan fréttalækinn.

Ýmsir yrðu líka þeirri stund fegnastir þegar hinn svo kallaði „frétta“tengdi þáttur Spegillinn – sem nú heitir víst einhverra hluta vegna Sumarspegillinn – legði upp laupana. Ástæðan er sú að þar starfa nokkrir menn og þiggja laun frá skattgreiðendum fyrir að lesa yfir honum áróður sinn um það hve þjóðfélag Bandaríkjanna og núverandi forseti þeirra séu slæm fyrirbæri og hve nauðsynlegt það sé að efla velferðarríkið og viðhalda störfum ríkisstarfsmanna. Og þegar hryllingspistlar um bölið í Bandaríkjunum hljóma ekki frá þessum þætti fá menn helst að hlýða á pistla um að heimurinn sé að farast og að ríkisvaldið og ríkisstarfsmennirnir verði að taka í taumana. Það má vel vera að ríkisstarfsmennirnir hafi áttað sig á að fjarvistir þeirra hefðu getað orðið lengri en tveir dagar ef þeir hlypust á brott í verkfall.