Mánudagur 18. júní 2001

169. tbl. 5. árg.

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík minnti á Skattadaginn á föstudaginn en það er fyrsti dagur ársins sem landsmenn eru ekki að vinna fyrir hið opinbera. Fram að 15. júní hafa menn eingöngu verið að vinna fyrir sköttunum en frá og með laugardeginum vinna menn fyrir sjálfa sig. Þessi niðurstaða fæst ef útgjöld hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, og iðgjöld til lífeyrissjóða eru tekin sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það hlutfall er nú 45,5% og vinnudagar landsmanna fyrir hið opinbera því 166. Skattadagur hvers árs er reiknaður út frá hlutfalli liðins árs.

Þessi aðferð er að sjálfsögðu ekki fullkomin enda vantar kostnað borgaranna af ýmsum boðum og bönnum í dæmið. En hún gefur ágæta mynd af þróuninni milli ára. Sú þróun hefur verið skuggaleg síðustu tvö árin enda hefur hið opinbera sópað til sín sköttum af ýmsum neysluvörum sem bera háa skatta eins og bílar og eldsneyti. Stór hluti þessara auknu tekna hefur því miður farið í eyðslu ríkis og sveitarfélaga. Ekki verður lát á því í bráð, því félagsleg aðstoð við hátekjufólk, svokallað „foreldraorlof“, leggst af fullum þunga á skattgreiðendur á næstu misserum, svo eitt dæmi sé nefnt. Eins og sjá má af súluritinu hér að ofan, sem Heimdallur hefur gefið út í bæklingi ásamt öðrum fróðleik um Skattadaginn, var þróunin jákvæð  frá 1993 til 1999 en síðustu tvö ár hafa verið afar neikvæð fyrir skattgreiðendur borið saman við árin þar á undan. Það kemur því á óvart að einhver skuli halda því fram að skattalækkanir á árunum 1997 – 1999 hafi verið mistök. Það má þvert á móti halda því fram að það hafi verið mikil mistök að lækka skatta ekki meira og koma þannig í veg fyrir að öll þau útgjöld sem þingmenn létu sig dreyma um í góðærinu yrðu að martröð skattgreiðenda.

Þótt Meðal-Jón vinni 166 daga fyrir hið opinbera er það að sjálfsögðu ekki raunin hjá flestum. Flestir eru að vinna minna eða meira fyrir hið opinbera en þessu nemur. Það er óhuggulegt til þess að vita að stór hópur fólks er meira en hálft árið að vinna fyrir hið opinbera. Hátt tekjuskattshlutfall, hátekjuskattur og eignaskattur sem á sér fáa líka í víðri veröld gera það að verkum að fólk er beinlínis hvatt til að leggja minna á sig. Þetta bitnar ekki síst á þeim sem ætla að leggja mikið á sig tímabundið, til dæmis á yngri árum á meðan menn eru að koma þaki yfir höfuðið.

Það má einnig bera þennan reiknaða hlut hins opinbera saman við annað sem við verjum fé okkar í. Skífan hér að neðan sýnir skiptingu útgjalda heimilanna þ.e. hvernig Meðal-Jón og hans fjölskylda verja tekjum sínum eða öllu heldur hvernig hið opinbera ráðstafar stórum hluta þeirra og þau verja afganginum. Neysluskiptingin byggir á vísitölugrunni Hagstofu Íslands sem gefinn var út í mars 1997. Skattar eru langstærsti útgjaldaliður heimilanna og þegar fólk fer yfir bókhald heimilisins sér það auðvitað að það getur aukið ráðstöfunartekjur sínar verulega með því að draga úr skattgreiðslum.