Föstudagur 15. júní 2001

166. tbl. 5. árg.

Hinar talandi stéttir Evrópu, pólitíkusar, skriffinnar og blaðamenn kveina nú mjög undan „einangrunarstefnu“ George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Í blaði franskra vinstrimanna Le Monde var á dögunum teiknimynd sem sýndi aðra hlið heimsins í ringulreið á meðan Sámur frændi var í föstum svefni á hinni hlið jarðarinnar og hafði tekið símann úr sambandi til að vera ekki ónáðaður. Gott ef íslenskir leiðarahöfundar hafa ekki tileinkað sér þessa speki og nýtt hana í skrifum sínum að undanförnu.

Margir þessara evrópsku kjaftaska hrópuðu „Yankee, go home“ fyrir utan sendiráð og herstöðvar Bandaríkjanna á sínum yngri árum og hafa æ síðan kvartað undan heimsvaldastefnu og yfirgangi Bandaríkjanna sem birtist að þeirra sögn í hverju sem Bandaríkjamenn taka sér fyrir hendur. Jafnvel bandarískir matsölustaðir sem selja aðallega kjötbita, ost og tómatsósu í brauði á hagstæðu verði eru gerðir að tákni um yfirgang Bandaríkjamanna og lagðir í rúst þegar einhverju – bara einhverju – er „mótmælt“ af „mótmælendum“ eins og hinir vel skipulögðu glæpaflokkar alþjóðlegra umhverfisverndarsamtaka er nefndir í evrópskum fjölmiðlum. Ekki þarf að minnast á sífellt nöldur um ruslmyndir frá Hollywood og annan „yfirgang“ Bandaríkjamanna í menningarmálum.

Í fyrsta sinn í áratugi vilja evrópskir vinstri menn meiri afskipti forseta Bandaríkjanna af heimsmálum
Í fyrsta sinn í áratugi vilja evrópskir vinstri menn meiri afskipti forseta Bandaríkjanna af heimsmálum

En nú hefur orðið alger umsnúningur. Eftir að George W. Bush tók við embætti forseta hafa Bandaríkin mátt þola látlausa gagnrýni fyrir einangrunarstefnu og að láta sig mál annarra heimshluta litlu varða. En ef það er rétt að Bandaríkin hafi nú minni áhuga en áður á að skipta sér af gangi mála í öðrum hlutum heimsins ættu evrópskir vinstrimenn að fagna því að fengið ósk sína um  „Yankee, go home“ uppfyllta.

Ef til vill treysta evrópskir vinstrimenn George W. Bush betur en nokkrum öðrum forseta Bandaríkjanna til að láta gott af sér leiða í heiminum.