Fimmtudagur 14. júní 2001

165. tbl. 5. árg.

Frá því var greint í gær, að nú hefðu borgaryfirvöld efnt til „hugmyndasamkeppni um skipulag miðborgar og hafnarsvæðis við Austurhöfn þar sem byggja á nýtt hótel og ráðstefnuhús fyrir 10 milljarða króna.“ Eða svo sagði að minnsta kosti í fréttum Ríkisútvarpsins. Það er nefnilega það. Það „á“ sem sagt að byggja þarna hótel og ráðstefnuhús fyrir 10 milljarða króna. En fyrst svo er, mætti þá Vefþjóðviljinn spyrja: Hver hefur ákveðið það?

Í sjálfu sér er varla sanngjarnt að áfellast fréttamenn fyrir að halda að það liggi fyrir að svo gríðarleg og kostnaðarsöm mannvirki séu bara rétt ókomin á hafnarbakkann. Undanfarin misseri hafa nokkrir áhrifamiklir samsærismenn nefnilega róið að því öllum árum að milljörðum króna af skattpeningum verði varið til tónlistarhúsbyggingar af fínustu sort á dýrasta stað í Reykjavík. Og svo tala þeir alltaf eins og málið sé frágengið og ekki annað eftir en grafa grunn, leggja marmarann og blása í lúðrana. Ítrekað er fullyrt að ákveðið hafi verið að tónlistarhús verið byggt á vegum hins opinbera og menntamálaráðherra, sem lengst hefur gengið í þessu máli, hann talar meira að segja stundum blákalt um það að ríkið sé nú „skuldbundið“ til að reisa þetta tónlistarhús.

En staðreyndir málsins eru einfaldar. Tónlistarhúsið myndi kosta milljarða króna. Það er aðeins einn aðili sem gæti ákveðið að ríkið færi út í slíka framkvæmd. Og sá aðili er ekki Björn Bjarnason og enn síður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Og það er heldur ekki ríkisstjórn Íslands ef út í það er farið. Það er Alþingi sem gæti látið síkt fé af hendi rakna með lagasetningu, til dæmis með fjárlögum. Og þetta hefur Alþingi ekki gert. Eða hvað? Eru menntamálaráðherra og borgarstjóri – sem er litlu skárri í þessu máli – reiðubúin að upplýsa hvaða fjárveitingar alþingi og borgarstjórn Reykjavíkur hafa samþykkt til byggingar tónlistarhallarinnar? Eru þau reiðubúin til að upplýsa hvaða aðili, sem fer með fjárveitingarvald, hefur ákveðið að tónlistarhúsið skuli reist fyrir opinbert fé?

Þangað til þetta hefur verið upplýst þá er staða tónlistarhússmálsins einföld: Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að hið opinbera leggi nokkurt fé til byggingar tónlistarhúss. Og ríkið er að sjálfsögðu alls ekki skuldbundið til að byggja þetta hús. Gagnvart hverjum ætti það að vera skuldbundið? Hver gæti farið í mál við ríkið og fengið það dæmt til að byrja að byggja? Nei, talið um að allar ákvarðanir hafi verið teknar í tónlistarhússmálinu eru einfaldlega örvæntingarfullar heilaþvottartilraunir þeirra sem öllum brögðum munu beita til að fá höllina sína byggða.