Miðvikudagur 13. júní 2001

164. tbl. 5. árg.

Líklega bera fáir jafn spennandi titil og maðurinn sem skrifaði grein í Morgunblaðið í gær og var titlaður „tækjaleitarmaður”. Meðal þess sem tækjaleitarmaðurinn – sem vinnur hjá RÚV hafi einhver verið í vafa – gat um í grein er 12. grein laga um Ríkisútvarið en þar segir „Eigandi viðtækis sem nýta má til móttöku á sendingum Ríkisútvarpsins skal greiða afnotagjald, af hverju tæki. Þó skal aðeins greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Afslátt skal veita þeim sem aðeins geta nýtt sér svart/hvíta móttöku sjónvarpsefnis og þeim sem einungis geta nýtt sér hljóðvarpssendingar. Einnig er heimilt að veita fyrirtækjum og stofnunum afslátt vegna fjölda tækja á sama stað.“

Tækjaleitarmaðurinn leggur mikið upp úr því að lögin séu „kristalskýr“ og því beri að greiða af hverju tæki. Þetta er óvænt yfirlýsing frá starfsmanni Ríkisútvarpsins þar sem starfsmenn þess greiða ekki afnotagjöldin af neinu tæki á heimilum sínum. Tækjaleitarmaðurinn er greinilega mjög kappsamur, um það ber grein hans glöggt vitni. Það ætti því að veitast honum létt verk að heimsækja nokkur hundruð starfsmenn Ríkisútvarpsins og sjá til þess að þeir greiði af svo sem einu tæki hver. Hann hefði lögin sín megin í því starfi eins og hann sýndi kristalskýrt fram á grein sinni.

Ýmsum þótti vart við hæfi að Svavar Gestsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, yrði sendiherra Íslands í Nato ríkinu Kanada. Færri hafa maldað í móinn eftir að Svavar var gerður að fulltrúa þjóðar sinnar í Stokkhólmi. Jafnvel eru þeir til sem þykir það mjög við hæfi. Sendiherra Íslands í Stokkhólmi er sendiherra Íslands í Albaníu.