Þriðjudagur 12. júní 2001

163. tbl. 5. árg.

Myndin sýnir yfirborðshita sjávar
Myndin sýnir yfirborðshita sjávar

Í síðustu viku kom út skýrsla á vegum bandaríska vísindaráðsins (National Academy of Sciences) um breytingar á loftslagi jaðar. Skýrslan var unnin að beiðni Hvíta hússins. Skýrslan hefur af sumum fjölmiðlum verið talin einróma lofgjörð um Kyoto bókunina og staðfesting á því að hlýnun af manna völdum sé raunveruleg. Hafa sumir fréttamenn talið Bush forseta í vanda vegna hennar en hann náði kjöri sem forseti á síðasta ári með það stefnumál í farteskinu að hafna Kyoto bókuninni og hefur ítrekað þá skoðun sína eftir að hann tók við sem forseti.

Richard S. Lindzen prófessor í veðurfræðum við MIT er einn 11 vísindamanna sem samdi skýrsluna. Hann sá ástæðu til að rita grein í Wall Street Journal í gær vegna ónákvæms fréttaflutnings um skýrsluna. Greinin ber yfirskriftina „Scientist’s Report Doesn’t Support the Kyoto Treaty“ eða „Skýrsla vísindamanna er ekki stuðningur við Kyoto bókunina“.

Hér er stuttur kafli úr grein Lindzens: „Helsta niðurstaða okkar sem unnum skýrsluna er að þrátt fyrir að við höfum sömu þekkinguna til að styðjast við og séum sammála um ýmislegt er langt frá að menn hafi komist að vísindalegri niðurstöðu. Við getum fullyrt með nokkurri vissu að (1) loftslag er 0,5°C hlýrra en það var fyrir öld, (2) styrkur koltvíoxíðs í andrúmsloftinu hefur aukist síðustu tvær aldirnar og (3) koltvíoxíð er ein margra gróðurhúsalofttegunda og aukinn styrkur þess leiðir líklega til hlýnunar.

En – og ég get ekki lagt næga áherslu á það – við getum ekki með vissu tengt hlýnun liðinnar aldar við koltvíoxíð og heldur ekki spáð um þróun loftslags í framtíðinni. Með öðrum orðum sagt – andstætt því sem fjölmiðlar segja – þótt við séum sammála um þessi þrjú atriði erum við engu nær um það til hvaða aðgerða á að grípa.
Ein ástæða þessarar óvissu er, eins og bent er á í skýrslunni, að loftslagið er alltaf að breytast, breytingar eru eðlilegt ástand. Á stórum hluta norðurhvels jarðar var lítilli ísöld að ljúka fyrir um tvöhundruð árum, fyrir þúsund árum var sérstaklega hlýtt á sama svæði og fyrir þrjátíu árum höfðum við áhyggjur af kólnun loftslagsins.
Það er því ekki hlaupið að því að greina hinar smávægilegu nýlegu breytingar á meðalhita andrúmsloftsins frá náttúrulegum sveiflum. Allar tilraunir til þess hingað til gera ráð fyrir að tölvulíkön geti hermt eftir hinum náttúrulegu sveiflum en ég efast um að nokkur trúi því að svo sé.
Við vitum einfaldlega ekki hvort og þá hvaða tenging er á milli breytinga á loftslagi og magni vatnsgufu, skýja, vinda, fellibylja og annarra þátta, þeirra á meðal staðbundinna breytinga á loftslagi sem eru oft mun meiri en breytinga á heimsvísu og án nokkurs samhengis við þær. Við getum heldum ekki spáð fyrir um breytingar á styrk gróðurhúsalofttegunda vegna þess að við sjáum ekki fyrir hver framvinda efnahagsmála og tækni verður á næstu öld. Auk þess framleiðum við fleiri efni sem við höfum ekki fylgst með og vitum ekki hver áhrif hafa en þau gætu haft áhrif sem jafnast á við koltvíoxíð.“

Lindzen lýkur grein sinni með þessum orðum: „Í dægurþrasinu er vísindum oft beitt gegn pólitískum andstæðingum og til að hafa áhrif á almenning. Það hefur bæði gerst með skýrslur frá IPCC (loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna) og NAS. Þetta er forkastanlegt og dregur úr getu okkar til að taka rökréttar ákvarðanir. Hin raunsæja ályktun sem draga má af vísindalegri þekkingu á málinu er hins vegar sú að óvissan er mjög mikil – mun meiri en fylgismenn Kyoto viðurkenna –  og skýrslan frá NAS hefur síður en svo leitt málið til lykta. Enda var henni ekki ætlað að gera það.“