Mánudagur 11. júní 2001

162. tbl. 5. árg.

Jenna Bush fær sér snúning með pabba
Jenna Bush fær sér snúning með pabba

Yfirvöld í Bandaríkjunum voru á dögunum að angra einn af borgurum sínum. Þessi borgari hefur heimild til að gifta sig, kjósa, ganga í herinn og honum ber skylda til að greiða skatta, en honum er ekki heimilt að kaupa áfengi. Þetta síðast nefnda hefur komið honum í tvisvar sinnum í vandræði að undanförnu, því hann hefur gert tilraunir til að festa kaup á áfengum drykk á veitingastað. Þessi borgari hefur komist í fjölmiðla vegna þessarar fjárfestingartilraunar af þeim sökum að hann er dóttir forseta Bandaríkjanna, en einhverra hluta vegna þykja dætur forseta fréttnæmari en annað fólk. Dóttir forsetans er nítján ára gömul, en væri hún tveimur árum eldri mætti hún kaupa og hesthúsa allt það áfengi sem henni sýndist. Nítján ára má hún hins vegar aðeins vera áhorfandi.

Þetta er svo sem nokkuð sem Íslendingar kannast við, þó hér bíði að vísu ekki fangelsisvist þeirra sem í þriðja sinn brjóta af sér með þessum hætti líkt og reglurnar kveða á um þar sem forsetadóttirin hugðist kaupa áfengi. Og hér eru mörkin ekki 21 ár heldur 20. En ástandið er þó nógu slæmt hér líka. Flestir Íslendingar hafa bragðað áfengi – og sumir drekka mikið og reglulega – áður en þeir hafa náð tvítugsaldri. Líklega er óhætt að fullyrða að það ungmenni sé ekki til hér á landi sem á í erfiðleikum með að verða sér úti um áfengi. Þó er þeim þetta ekki heimilt fyrr en tvítugsaldrinum er náð. Fólki er samt sem áður leyfilegt frá átján ára aldri að gifta sig, kjósa Vinstri hreyfinguna grænt framboð og flest annað annað sem því dettur í hug og fullorðnum er almennt heimilt. Því er einnig skylt að greiða skatta eins og fullorðnir væru.

Þessar sérreglur um áfengiskaup eru bæði órökréttar og ranglátar.