Fyrir nokkru gerðu ríkisstjórnir aðildarlanda Evrópusambandins með sér samkomulag nokkurt, „Nice-samninginn“. Samningur þessi er um nokkur atriði en mestu skiptir að hann greiðir 12 nýjum ríkjum leið inn í Evrópusambandið. Núverandi aðildarríki þurfa öll að staðfesta samninginn til að hann geti öðlast gildi og stendur það ferli yfir um þessar mundir. Eins og menn vita þá eru þá treysta forkólfar Evrópusambandsins sjálfum sér einna best til að ráðstafa málefnum álfunnar en hafa minni trú á almennum Evrópubúum. Þess vegna verður samningur þessi staðfestur án þess að nokkurs staðar verði hætt á athuga hvað almennir borgarar kunna að hafa um hann að segja.
„Þess vegna verður alltaf kosið aftur um það sem áður hefur verið hafnað – en aldrei kosið aftur um nokkuð sem einu sinni hefur verið samþykkt. Og þess vegna mun Írum sjálfsagt ekki haldast uppi að hafa eigin skoðun á því sem Evrópusambandið hefur þegar ákveðið.“ |
Með einni undantekningu. Vegna ákvæða í stjórnarskrá Írlands þá gat írska ríkisstjórnin ekki staðfest samninginn án þess að bera hann undir þjóðaratkvæði. Það gerði hún á föstudaginn og er skemmst frá því að segja að samningurinn kolféll. Írland getur því ekki staðfest samninginn. Og viðbrögð þeirra í Brussel hafa ekki látið á sér standa. Á fréttamannafundi í gær upplýsti höfðingi mikill, Guenter Verheugen að nafni, og ber hinn tilkomumikla titil „The EU Enlargement Commissioner“ hvað gert yrði með neitun Íra: „Það kemur ekki til mála að synjun í þjóðaratkvæði í einu aðildarríki hindri mikilvægasta verkefni Evrópusambandsins.“
Nei, það gengur auðvitað ekki. Enda dettur varla nokkrum mönnum í hug að írskir kjósendur komist upp með að ybba gogg þegar sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stendur í stórræðum. Þess vegna munu Írar að lokum staðfesta samninginn sem þeir höfnuðu. Að vísu verða gerðar á honum einhverjar minniháttar breytingar þar til Írar hætta að nenna að mæta og kjósa á móti „þróuninni“. Forkólfar Evrópusambandsins eru upplýstir, faglegir og nútímalegir – og þar að auki umkringdir hámenntuðum stjórnmálafræðingum og jafnvel sérstökum sérfræðingum í „Evrópurétti“ – og slíkir menn fara ekki að láta einhverja almenna borgara hrekja sig af leið. Þess vegna forðast þeir líka allar aðrar þjóðaratkvæðagreiðslur en þeir beinlínis neyðast til að halda. Þess vegna verður alltaf kosið aftur um það sem áður hefur verið hafnað – en aldrei kosið aftur um nokkuð sem einu sinni hefur verið samþykkt. Og þess vegna mun Írum sjálfsagt ekki haldast uppi að hafa eigin skoðun á því sem Evrópusambandið hefur þegar ákveðið.
Nú er ekki svo að skilja að VÞ sé sértakur talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna og viðbrögð þeirra sem ráða við niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar á Írlandi sýna að það má alltaf sniðganga þær með einhverjum hætti, endurtaka ef „æskileg niðurstaða“ fæst ekki eða greiða atkvæði um eitthvað örlítið frábrugðið þar til „rétt niðurstaða“ fæst. VÞ hefur verið þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur séu almennt síðri aðferð en fulltrúalýðræðið þegar þarf að taka ákvarðanir um opinber málefni. Hins vegar vekur VÞ athygli á viðbrögðum Evrópusambandsins við niðurstöðum írsku þjóðaratkvæðagreiðslunnar vegna þess að þær minna á það hvað forystumönnum Evrópusambandsins þykir um skoðanir einstakra aðildarríkja. Forysta Evrópusambandsins rær að því öllum árum að auka vald sitt og áhrif og hún lætur einstök aðildarríki ekki komast upp með neitt múður. Evrópusambandið mun aldrei láta af sókn sinni til aukins eigin valds og það mun aldrei gefa upp það herfang sem það nokkru sinni hefur hrifsað til sín.
En á Íslandi eru til menn sem vilja endilega ganga strax í Evrópusambandið. Það er sko vegna þess að „þá hefðum við svo mikil áhrif á þróunina í Evrópu.“