Ýmsir leggja talsvert upp úr því að setja strangar reglur um fjármál stjórnmálaflokka, ekki síst um hversu miklu þeir eyða í kynningar fyrir kosningar. Í Daily Commentary á heimasíðu CATO Institute í gær er vakin athygli á því að Bretar hafa nú strangar reglur um eyðslu fyrir kosningar m.a. hreinar takmarkanir á fjárútlátum flokka, frambjóðenda og annarra sem vilja hafa áhrif. Einnig er bannað að kaupa auglýsingar í sjónvarpi og útvarpi. Þá er kosningabaráttan afar stutt. Ýmsir myndu kannski ætla að þetta hefði jákvæð áhrif á kosningabaráttuna; menn ræddu fremur um málefni en menn, neikvæð barátta eða skítkast yrði minni og þar af leiðandi kæmu fleiri á kjörstað.

Í Daily Commentary er hins vegar bent á að með þessum takmörkunum á fjárútlátum og auglýsingum hafi kjósendur ekki fengið þær upplýsingar um menn og málefni sem þeir annars hefðu fengið og takmarkanir af þessu tagi verndi sitjandi þingmenn. Sitjandi þingmenn hafa yfirleitt forskot á keppinauta sína eftir nokkurra ára starf í kjördæminu. Þeir eru flestum kunnir og hafa aðstöðu sem andstæðingar þeirra hafa ekki. Eyðslubannið á svo ekki við um ríkið sjálft enda eyddi ríkisstjórnin um 9 milljörðum króna á þremur mánuðum fyrir kosningar í kynningar á því hvað nýi Verkamannaflokkurinn hafi gert margt gott fyrir Bretland. Það skemmir ekki fyrir þessari kenningu að 98% þingmanna Verkamannaflokksins náðu endurkjöri.
Og var baráttan málefnaleg? Nei, þvert á móti einkenndist hún af upphrópunum og persónulegum árásum á flokksleiðtogana. Að minnsta kosti þyrptust kjósendur ekki á kjörstað upptendraðir af pólitískum áhuga heldur var kjörsókn sú minnsta frá 1918.