Laugardagur 16. júní 2001

167. tbl. 5. árg.

Í leiðara DV á fimmtudag var réttilega bent á að Bandaríkjamenn eru aðeins 5% jarðarbúa en senda frá sér 25% þeirra gróðurhúsalofttegunda sem berast út í loftið af manna völdum. Þetta telur höfundur leiðarans til marks um að Bandaríkjamenn séu „sóðaríki“ en hann telur Ástralíu og Ísland einnig til sóðaríkja þótt hvergi sé minni útblástur gróðurhúsalofttegunda á orkunotkun en einmitt á Íslandi. Það segir þó ekki alla söguna að Bandaríkjamenn séu aðeins 5% mannkyns. Bandaríkjamenn sjá mannkyni fyrir 25% vöru og þjónustu.

Bush í olíuvinnslu í Texas
Bush í olíuvinnslu í Texas

Í leiðaranum er því einnig haldið fram að ríkisstjórn George W. Bush hafi „á skömmum tíma kippt Bandaríkjunum úr forustu vestrænna ríkja fyrir margvíslegum framförum í heiminum, þar á meðal í baráttunni gegn aukningu gróðurhúsalofttegunda.“ Það er ef til vill um of að ætla leiðarahöfundi DV að hafa kynnt sér afstöðu Bush og öldungadeildar Bandaríkjaþings til Kyoto samningsins um gróðurhúsalofttegundir. Árið 1997 samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings með 95 atkvæðum gegn engu ályktun þess efnis að Bandaríkin yrðu ekki með í samningi um loftslagsmál án þess að öll ríki heims yrðu aðilar. Hvorki Kína, Indland né önnur þróunarríki verða aðilar að Kyoto samningum. Það var því aldrei vilji til þess í Bandaríkjunum að samþykkja Kyoto samninginn. Það má vel vera að Al nokkur Gore hafi gert sér vonir um það en hann hafði að minnsta kosti ekki mjög hátt um þá skoðun sína í kosningabaráttunni vestra síðasta haust. Bush hafði mjög ákveðnar skoðanir á Kyoto samningnum fyrir forsetakosningar og hefur haldið sig við þá skoðun síðan. Í stefnuskrá hans sagði m.a.: „Andvígur Kyoto bókuninni. Hún er óskilvirk, ófullnægjandi og ósanngjörn gagnvart Bandaríkjunum. Um 80% heimsins er undanþegin þátttöku, þeirra á meðal fjölmenn ríki eins og Kína og Indland.“ Skýrar getur það vart verið.

Þótt stefna Bush hafi verið svo skýr frá byrjun sagði í leiðara DV: „Í rauninni eru hagsmunir olíufélaga í Texas, heimaríki Bush, að baki sinnaskipta forsetans.“ Hvaða sinnaskipti?