Föstudagur 1. júní 2001

152. tbl. 5. árg.

Fyrir stuttu var hér í Vef-Þjóðviljanum fjallað um Rannsóknarlögreglustörf á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs í samráði við formann heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Ráðið beitti svonefndum tálbeitum í störfum sínum og kom það í hlut barna að vera agnið. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykkti að lagt yrði tóbakssölubann á verslanir sem féllu á tálbeituprófi tómstundaráðs. Formaður umhverfis- og heilbrigðisnefndar var ekki í vafa um að nefndin færi að lögum við rannsókn málsins og ákvörðun sína um sölubann þetta.

Í dægurmálaútvarpi Rásar 2 18. maí var Hrannar B. Arnarsson formaður nefndarinnar spurður hvort nefndin væri „á hálum ís lagalega með þetta“. Og Hrannar svaraði orðrétt: „Við teljum okkur engan veginn á hálum ís með þetta.“ Einnig má hafa ummæli síðar úr þættinum eftir Hrannari: „Við teljum okkur vera í fullum rétti … til að grípa til þessara aðgerða.“ Og þetta stuttu síðar: „Við teljum okkur vera í fullum lagalegum rétti til að gera þetta.“ Og svo kom þetta í lokin frá manninum sem er kunnur að því að fara að lögum, ekki síst skattalögum: „Við teljum okkur vera í fullum rétti.“

Hrannar treysti þó löghlýðni sinni ekki betur en svo að hann leitaði álits borgarlögmanns á aðferðum nefndar sinnar. Lögmaður Reykjavíkurborgar skilaði umsögn sinni 21. maí og í niðurlagi hennar segir m.a.: „Heilbrigðisnefnd ber í störfum sínum og hverju einstöku máli að fara að reglum stjórnsýslulaga. Mál hvers aðila er sérstakt mál sem taka verður sérstaka ákvörðum um. Málavextir þeir sem hér hafa verið til umfjöllunar leiða í ljós að ákvæðum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt að öllu leyti og vísast til þess sem að framan er ritað varðandi rannsóknarreglu og andmælarétt.“ Í niðurlaginu segir einnig: „Meðalhófsregla stjórnsýslulaga veldur því að heilbrigðisnefnd getur ekki sett þriggja mánaða sölubann á þá aðila…“ (Feitletrun VÞ)

Borgarlögmaður telur að jafnræðisregla hafi verið brotin, meðalhófs ekki gætt og rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Borgarlögmaður segir til dæmis um rannsóknina: „Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að heilbrigðisnefnd hafi staðið fyrir sjálfstæðri rannsókn á meintum brotum og hefur nefndin því ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.“ (Feitletrun VÞ) Þá kemur fram í umsögn borgarlögmanns að mikilvægur réttur aðila máls til aðgangs að gögnum málsins, sem 15. gr. stjórnsýslulaga tryggir, var ítrekað virtur að vettugi.

Þetta kallar Hrannar B. Arnarsson „að vera í fullum lagalegum rétti“. Hvað þarf þá til að hann lendi í órétti?