Fimmtudagur 31. maí 2001

151. tbl. 5. árg.

Frá því var greint í fréttum í gær að hinn mæti og vandaði maður, Sverrir Hermannsson alþingismaður, hvetti smábátasjómenn nú til að hafa að engu tiltekin lög sem Alþingi hefur sett þrátt fyrir andstöðu Sverris. Á Sverrir hér við margrædd lög þess efnis að frá og með haustinu skuli allir þeir sem sækja sjóinn lúta sömu reglum. Mun það hafa þau áhrif að engum verður lengur heimilt að veiða eins og hann lífsins mögulega getur um leið og aðrir verða að lúta reglum um leyfðan hámarksafla. En Sverrir Hermannsson vill að þeir á smærri bátunum láti þessi lög sig engu varða. Fréttamaður gat þess einnig, að félagi Sverris, Guðjón A. Kristjánsson, væri sama sinnis og var tekið fram að þeir tveir „muni styðja“ smábátasjómenn ef til þessa kemur.

Já, þeir Guðjón ætla að styðja sjómennina sem nú eru hvattir til lögbrota. Þakka skyldi. En í hverju ætli sá stuðningur muni felast? Þegar Landhelgisgæslan stöðvar smábátasjómann sem veiðir umfram heimildir, sjómaðurinn verður dæmdur og sektaður, ætlar Sverrir Hermannsson þá að borga fyrir hann sektina? Þegar ólöglegur afli og veiðarfæri hafa verið gerð upptæk, getur sjómaðurinn þá snúið sér til stuðningsmanna sinna, Sverris Hermannssonar og Guðjóns A. Kristjánssonar, og fengið tjón sitt bætt? Eða ætli stuðningurinn verði bara einkum fólginn í innantómu gaspri og fúkyrðum?

Engin ástæða er til að efast um það að ýmsir munu missa spón úr aski sínum þegar sú breyting verður að þeir geta ekki lengur veitt eftir eigin hentugleikum. Sumir hafa eflaust lagt út í fjárfestingar í trausti þess að þeim yrði aldrei gert að lúta sömu reglum og aðrir. Einhverjir munu ekki treysta sér til að halda áfram útgerð sinni þegar svo er komið og munu jafnvel flytja búferlum. Það er því vel skiljanlegt að margir hafi lagt hart að þingmönnum að leyfa smábátasjómönnum enn að búa við aðrar reglur en aðrir menn gera. Það þarf heldur ekki að koma á óvart þó sumir þingmenn freistist til að gerast sérstakir talsmenn smábátasjómanna á þingi, og eflaust hafa ýmsir þeirra gert það af betri hvötum en venjulegri sýndarmennsku.

En fiskurinn sem smábátasjómenn veiða, hann kemur einhvers staðar frá. Eins og ýmsum er kunnugt þá eru fleiri en smábátamenn sem stunda sjó við Ísland. Margir átta sig á því að við aukinn afla smábáta minnkar það sem aðrir geta fiskað. Þess vegna þótti flestum sem ósanngjarnt væri að smábátasjómenn gætu veitt og veitt en aðrir yrðu að lúta sífellt minnkandi heildarafla. Fyrir nokkru ákvað löggjafinn því að allir skyldu lúta sömu reglum. Gildistöku þeirrar ákvörðunar var síðar frestað fram á næsta haust en að öllu óbreyttu tekur þessi ákvörðun gildi þá. En þá er það sem Sverrir Hermannsson kemur með lausnina: Blessaðir verði, brjótiði bara þessi lög, ég styð ykkur strákar.

Hvernig ætli það sé, ætli þessi nýja stefna Sverris Hermannssonar eigi að hafa almennt gildi? Hvernig verður til dæmis með skattalögin? Þeir sem eru þeirrar skoðunar að skattar á Íslandi séu úr öllu hófi fram, mega þeir hætta að telja fram? Eða mega menn bara brjóta þau lög sem Sverrir Hermannsson er á móti?