Miðvikudagur 30. maí 2001

150. tbl. 5. árg.

Við samanburð Vef-Þjóðviljans á útblæstri frá strætisvögnum SVR og einkabílum kom í ljós að útblástur koltvísýrings frá strætó er ekki minni en frá mörgum einkabílum ef tekið er mið af nýtingu faratækjanna. Það eru eingöngu stórir eyðslufrekir einkabílar með einum farþega sem gefa frá sér meiri koltvísýring á farþegakílómetra en strætó. Stórir einkabílar með tveimur farþegum eða fleiri eru mun „umhverfisvænni“ en strætó ef þessi mælikvarði er notaður. Ökumaður í litlum bensínknúnum einkabíl í Reykjavík „mengar“ minna en strætisvagnafarþegi. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst léleg nýting hinna stóru strætisvagna sem aka um borgina.

Útblástur koltvísýrings er í sjálfu sér ekki vandamál í borgarloftinu þótt hann gefi ágæta mynd af því hvað mismunandi farartæki blása miklu frá sér. En það er ekki nóg með að strætisvagnarnir blási meiri koltvísýringi frá sér en einkabíllinn. Í nýrri greinargerð gatnamálastjóra og heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif loftmengunar segir m.a.: „Mun meira svifryk er í útblæstri díselvéla en í útblæstri bensínvéla. Stórar og þungar bifreiðar þyrla upp mun meira ryki af götunum en minni bifreiðar.“
Strætisvagnarnir sem aka um götur borgarinnar ganga fyrir díselolíu og þeir eru stórir og þungir.

Það er aðeins hægt að draga eina ályktun af þessu áliti. Svifryksmengun frá hverjum kílómetra sem strætó ekur með hvern farþega er mun meiri en frá hverjum kílómetra sem farþegi í bensínknúnum einkabíl fer. Við þetta bætist svo að meðalaldur vagna í flota SVR er hærri en meðalaldur einkabíla borgarbúa. Stöðugar framfarir hafa orðið á vélum og hreinsibúnaði farartækja og nýjar vélar eru þéttari og brenna eldsneyti betur en gamlar og slitnar vélar. Í Bretlandi hefur verið áætlað að allt að 50% svifryksmengunar komi frá þeim 10% bílaflotans sem er elstur og í verstu ástandi.

Skattgreiðendur í Reykjavík niðurgreiða akstur á vegum SVR um 500 milljónir króna á ári. Með rekstri borgarinnar á SVR fá borgarbúar bæði mun hærri skatta og „mun meira svifryk“.