Ágúst Einarsson fyrrum gjaldkeri Alþýðuflokksins, stjórnarmaður Bandalags jafnaðarmanna, þingmaður Þjóðvaka og í augnablikinu varaþingmaður Samfylkingarinnar, sem því miður féll af þingi í síðustu kosningum, lagði fram milljónir króna í útgáfufélag dagblaðsins Dags-Tímans árið 1997 og uppskar óvænt glæsiviðtal í sama blaði skömmu síðar. Jafn óvænt var að blaðið vitnaði tíðum í skoðanir Ágústs á meðan milljónirnar frá honum dugðu fyrir prentsvertu og pappír. Nokkrum dögum fyrir lok útgáfunnar vildi einnig svo skemmtilega til að Ágúst fékk viðhafnarviðtal við sig í blaðinu.
Nú hafa borist fréttir af því að Ágúst hafi keypt hlut í útgáfufélagi DV og mæti á skrifstofu blaðsins til að anda ofan í hálsmálið á blaðamönnum. Og viti menn, skemmtilegar tilviljanir eru farnar að hrannast upp. Ágúst má vart draga til stafs án þess að spekin birtist á síðum DV. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, að minnsta kosti er Vef-Þjóðviljinn ekki þeirrar skoðunar að eigendur fjölmiðla megi ekki hafa áhrif á stefnu þeirra. Hins vegar geta menn ímyndað sér hljóðin sem heyrðust úr ýmsum hornum ef Ágúst væri hægri maður og nyti velvildar – svo ekki sé meira sagt – tiltekinna fjölmiðla sinna. Jafnvel mætti ímynda sér að Spéspeglar útvarpsstöðvanna, eða hvað þeir heita „fréttaskýringaþættir“ vinstri manna, myndu segja ýmislegt spaklegt um það. Eða hvort ákveðnum þingmönnum Samfylkingarinnar þætti það ekki „ógnun við lýðræðið“.
En vinstri mönnum leyfist svo sem ýmislegt þegar fjölmiðlar eru annars vegar. Fyrir nokkrum árum kom til dæmis út vikublað sem nefndist Helgarpósturinn og var víst ætlað að vera gagnrýnið og hlutlaust fréttablað um þjóðfélagsmál. Svo komst allt í einu upp að einn allra áhrifamesti hluthafi blaðsins – hann átti 40 % hlutafjár – það var hlutlaus aðili sem nefnist Alþýðubandalagið, sem mun vera eitt aðildarfélaga Samfylkingarinnar. Alþýðubandalagsmenn höfðu hins vegar ekki séð neina ástæðu til að upplýsa fólk um þessi fjölmiðlaumsvif sín en engu að síður var lítið veður gert út af þessu. Menn ættu að reyna að gera sér í hugarlund lætin sem yrðu ef annars konar stjórnmálaflokkur – ótengdur Samfylkingunni – myndi árum saman vera stærsti hluthafi fjölmiðils en ekki segja neinum frá því. Ætli menn yrðu ekki stórorðir? Ætli pistlahöfundar teldu sig ekki hafa komist í feitt? Ætli ekki yrðu gerðir ýtarlegir „fréttaskýringaþættir“ með viðtölum við óðamála vinstri menn? Og ætli ekki yrði efnt til málefnalegrar utandagskrárumræðu á Alþingi, eins og vinstri mönnum einum er lagið?