Fimmtudagur 17. maí 2001

137. tbl. 5. árg.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar hefur undanfarin misseri lagt stund á rannsóknarlögreglustörf. Störfin felast í því að gera út svonefndar tálbeitur á sölustaði tóbaks. Tálbeiturnar eru á aldrinum 13 til 15 ára og fara á sölustaði og reyna að fá keypt tóbak. Takist að fá keypt tóbak er klagað í heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og tóbakvarnaráð ríkisins en bannað er að selja ungmennum tóbak. Heilbrigðisnefndin hefur svo ákveðið að svipta nokkra kaupmenn, sem létu tæla sig til að selja útsendurum ÍTR tóbak, leyfi til tóbakssölu. Nefndin er að vísu ekki viss um að hafa heimild til þess og leitar nú álits lögmanns borgarinnar á því.

Án efa býr góður hugur að baki þessum aðgerðum hinna opinberu nefnda og ráða. Hver vill ekki vernda börn fyrir tóbaksreyk? Dettur nokkrum í hug að mæla því bót að börn geti fengið keyptar sígarettur? Jafnvel tóbaksframleiðendur eins og Philip Morris slá sér upp á því að þeir fræði börn um skaðsemi reykinga og styðja baráttu gegn reykingum barna með ráðum og dáð. En það er ekki þar með sagt að nýtt starfsvið ÍTR og refsingar heilbrigðisnefndar séu til heilla. Hvar mun tálbeitudeild ÍTR láta að sér kveða næst? Mun hún senda börn í ÁTVR og á bari borgarinnar og láta þau gera tilraunir til að kaupa áfengi? Munu krakkarnir á leikjanámskeiði ÍTR reyna fyrir sér í fíkniefnaheiminum? Gera tilraun til að ná sér læknadóp? Stera? Það er bara hreint ekki frambærilegt að krakkar á leikjanámskeiði ÍTR séu notaðir til að tæla menn til lögbrota.

Væri ekki eðlilegra að taka einfaldlega á þeim kærum sem berast frá foreldrum um að börn þeirra hafi keypt tóbak? Er ekki eðlilegt að lögreglan sinni málum af þessu tagi eftir ábendingar frá „fórnarlömbum“ þeirra sjoppueigenda sem selja ungmennum afmælisgjöf til afa? Síðast en ekki síst má spyrja að því hversu langt hið opinbera skuli ganga þegar kemur að uppeldi barna. Verða foreldrar ef til vill óþarfir innan tíðar? Hið opinbera virðist að minnsta kosti ekki treysta foreldrum til að hafa auga með börnum sínum hvað þetta varðar. Og foreldrum virðist alls ekki treystandi, að mati nefnda og ráða, til að tilkynna um brot á þessu banni.