Föstudagur 18. maí 2001

138. tbl. 5. árg.

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, er maður kunnur fyrir spaugsemi og hyggst hann nú skemmta landanum með því að höfða mál á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir þá sök að hafa sett lög á sjómannaverkfall. Hann segir að lagasetning þessi sé „atlaga að frjálsum samningsrétti sem er hluti af grundvallarmannréttindum“. Grétar hefur vafalaust kímt í kampinn þegar hann mælti þessi orð, enda er frjáls samningsréttur nokkuð sem honum og félagi hans hefur aldrei verið annt um. Þetta er svona svipaður öfugmælahúmor og þegar hinn landsþekkti skemmtikraftur Össur Skarphéðinsson lætur liggja að því að hann sé leiðtogi stjórnarandstöðunnar.

Grétar slær þó sjálfsagt einhvers konar met að þessu sinni með öfugmælunum, því samtök hans hafa haft nærst á því áratugum saman að hafa frjálsan samningsrétt af launamönnum. Og til að bæta gráu á svart hafa þau með frjálsa samningsréttinum tekið drjúgan hluta launa almennings til einkanota. Samtökin hafa nefnilega þann háttinn á að neyða samninga upp á launamenn og banna þeim að semja sjálfum. Frjálsir samningar fólks eru óheimilir því Alþýðusambandið og önnur ámóta fyrirtæki hafa með liðsinni ríkisins komist upp með að hafa lögvarða einokun til samninga. Ef verkalýðsrekendurnir fengju fólk til sín án þvingunar væri ekkert út á verkalýðsfélögin svokölluðu að setja, en þegar þau starfa í skjóli nauðungar eru þau í besta falli vafasamar stofnanir. Að forsprakkar þeirra skuli saka aðra um að svipta fólk samningsfrelsi er skelfilega kaldhæðinn húmor. Alveg ískaldur.