Miðvikudagur 16. maí 2001

136. tbl. 5. árg.

Samkeppnisstofnun kynnti á dögunum skýrslu um þróun matvörurverðs á árunum 1996 til 2000. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar var að sú 15% hækkun sem varð á þessum árum stafi af einhvers konar skorti á samkeppni enda hafi annað aðeins hækkað um 11% á sama tíma. Eins og bent hefur verið á má taka ýmis önnur tímabil og fá út að matur og drykkur hafi hækkað minna en aðrar vörur og þjónusta. Samkeppnisstofnun varðar hins vegar ekkert um það. Stofnunin tekur heldur ekki tillit til breytinga á launakostnaði, húsnæðiskostnaði, afgreiðslutíma, vöruúrvali og fleiru í matvöruversluninni. Samkeppnisstofnun telur því að Samkeppnisstofnun þurfi  að hefja „stjórnsýslurannsókn“ á því hvort Íslendingum er treystandi til að kaupa í matinn án sérstakrar handleiðslu Samkeppnisstofnunar.

Vissulega væri það slæmt ef matur og drykkur hefði hækkað verulega umfram aðrar vörur á síðustu árum enda erfitt fyrir menn að neita sér um mat. En það er fleira en matarreikningurinn sem hinn almenni maður kemst ekki hjá að greiða. Það geta ekki allir stofnað Arnarsson og Hjörvar hf. og sleppt því að greiða skattana. Því er mikilvægt að kostnaður við opinberar stofnanir fari ekki úr böndunum. Á tímabilinu janúar 1996 til janúar 2001 hækkaði neysluvísitala um 16%, matur og drykkur hækkaði á sama tíma um 18% en kostnaður almennings vegna Samkeppnisstofnunar um 77%. Kostnaður almennings vegna Samkeppnisstofnunar hefur því hækkað um 61% umfram almennt verðlag á tímabilinu og 59% meira en matur og drykkur.
Vafalaust mun einhver bera því við að verkefnum Samkeppnisstofnunar hafi fjölgað á þessum tíma, laun starfsmanna hafi hækkað mikið á tímabilinu, húsnæðiskostnaður hækkað og starfsmenn þurft að vinna lengri vinnudag. En Samkeppnisstofnun þótti ekki ástæða til að taka tillit til slíkra atriða þegar hún skrifaði níðplaggið um matvöruverslunina.

Heimildir: Fjárlagafrumvarp, verkefnavísar, 1998, 1999, 2000 og 2001. Undirvísitölur fyrir mat og drykkjarvörur samkvæmt COICOP flokkunarkerfinu nóvember 1992 til mars 1997 og Vísitala neysluverðs, undirvísitölur 1997-2001, Hagstofu Íslands.