Þriðjudagur 15. maí 2001

135. tbl. 5. árg.

Framhaldslíf Verðlagsstofnunar, hin svonefnda Samkeppnisstofnun, hefur ýmislegt á sinni könnu. Embættismenn stofnunarinnar vita allt manna best um hvað er hagkvæmt og hvað ekki í íslensku atvinnulífi, þeir ákveða – og engir aðrir – hvaða fyrirtæki mega sameinast og hver ekki og þegar þeir gruna fyrirtæki um að brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga, rannsaka þeir málið, ákæra, flytja bæði sókn og vörn og dæma svo að lokum.

En starfsmenn stofnunarinnar hafa fleira að sýsla. Til dæmis forstjóri hennar sem áður var forstjóri Verðlagsstofnunar. Sú stofnun ákvað allt fram á síðasta áratug verð á eldsneyti hér á landi. Forstjórinn er jafnframt formaður stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara en Samkeppnisstofnun sér um rekstur hans. Eða eins og segir í lögum um flutningsjöfnun á olíuvörum: „Samkeppnisstofnun, að fenginni tillögu stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, ákveður gjald á olíuvörum skv. 1. mgr. fyrir minnst þrjá mánuði í senn og skal fjárhæð flutningsjöfnunargjalds hvers flokks, sbr. 4. gr., við það miðuð að tekjur af gjaldinu nægi til að greiða flutningskostnað á því magni af framangreindum olíuvörum sem flytja þarf frá næstu innflutningshöfn eða olíuhöfn til þeirra olíuhafna eða útsölustaða sem jöfnun flutningskostnaðar nær til svo að fullnægt verði eftirspurn eftir þeim olíuvörum sem dreift er þaðan.“

Hér er því um hefðbundið millifærslukerfi að ræða. Þetta niðurgreiðslukerfi dregur úr hagkvæmni í olíudreifingu og kemur í veg fyrir að hagkvæm dreifing komi fram í lægra verði á eldsneyti. Samkeppnisstofnun sér með öðrum orðum um takmarka samkeppni á þessu sviði. Hin samkeppnishindrunin á olímarkaði eru hinir háu skattar sem lagðir eru á eldsneytið. Þeir eru svo háir að munur á hæsta og lægsta verði verður aldrei mjög hátt hlutfall af útsöluverði.
Með því að leggja Samkeppnisstofnun og flutningsjöfnunarsjóð olíu niður, og nota þær rúmlega 600 milljónir króna sem þannig sparast til að lækka skatta á eldsneyti, mætti hiklaust gera samkeppni á þessum markaði sýnilegri.