Mánudagur 14. maí 2001

134. tbl. 5. árg.

Forseti Íslands er mikill bógur. Eins og menn vita er hann sjálfum sér og embætti sínu til sóma hvar sem hann kemur og hefur hann borið hróður Íslands um lönd og álfur. Innanlands einkennist allt hans fas af látleysi og hógværð og er nú svo komið að af og til eru gefin út tímarit þar sem hvorki forsetinn né nokkur úr hans nánasta skylduliði er á forsíðu. Erlendis vekur hann svo athygli fyrir sama tilgerðarleysið og má sérstaklega nefna að ræður hans þar hafa aukið mjög hróður bæði forsetans og lands hans; einmitt fyrir þá sök hversu forsetinn forðast öll innihaldslaus stóryrði sem gætu gert ræðumann og heimaland hans hlægileg. Hefur forsetinn getið sér svo gott orð að segja má að um hann megi hafa orð Más Jörundssonar úr Hallfreðar sögu vandræðaskálds: „Grís er maður auðigur og vinsæll. Hann hefir farið vel, verið allt út í Miklagarð og fengið þar mikla sæmd af stólkonunginum.“

Og forsetanum hlotnast að vonum ýmis maklegur heiður. Á dögunum var þannig tilkynnt að „háskólinn í Manchester“ hefði ákveðið að útnefna þennan gamla nemanda sinn heiðursdoktor í lögum. Að vísu mun forsetinn hafa lagt stund á stjórnmálafræði og hefur hann víst aldrei lært lögfræði nema síður væri. Og miðað við glæsilega frammistöðu hans í embætti fjármálaráðherra á sínum tíma hefði ef til vill verið betur við hæfi að forsetinn hefði verið útnefndur heiðursdoktor í bráðabirgðalögum. En hugurinn er það sem máli skiptir og menn eiga ekkert að vera að gera lítið úr verðskuldaðri viðurkenningu forsetans. Og nú eftir að forsetinn hefur tilkynnt að þessi ákvörðun háskólans verið sér „í senn óvænt en einnig dýrmæt“ geta menn sérstaklega fagnað því að Grimsson, Iceland, sé enn í hávegum hafður í Manchester, meira en 30 árum eftir að hann kom síðast til borgarinnar.

Því miður verða hins vegar alltaf til menn sem ekki geta unnt stórmennum sannmælis. „Hvað skal svíni silfur í trýni?“ spyrja þeir og vilja helst aldrei hrósa bestu mönnum landsins. Þá eru sumir þeirrar gerðar að þeir þurfa sífellt að gera lítið úr yfirburðamönnum og þykja þeir því hlægilegri sem þeir eru hátíðlegri. Í sínu þekkta lagi, Pigs, segir hljómsveitin Pink Floyd til dæmis:

„Big man, pig man, ha ha charade you are. 
You well heeled big wheel, ha ha charade you are. 
And when your hand is on your heart, you’re nearly a good laugh, 
almost a joker, with your head down in the pig bin.“

Svo ómaklegt sem það er, þá verður jafnvel afburðamaður eins og til dæmis forseti Íslands fyrir því að ekki er alltaf fjallað um hann af þeirri lotningu sem vert er. Er það sérstaklega leitt þar sem núverandi forseti uppfyllir einstaklega vel þá skyldu að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Því hverjar sem skoðanir manna eru, þá geta flestir fylkt sér að baki núverandi forseta. Með störfum sínum í áranna rás hefur forsetinn skapað sér traust fólks úr öllum áttum. Þeir sem til dæmis vilja að skattyfirvöld sýni fyrirtækjum enga miskunn og sendi lögregluna á þau, þeir urðu mjög ánægðir með forsetann á fjármálaráðherraárum hans. Og þeir sem á hinn bóginn vilja að yfirvöld séu samningalipur við fyrirtæki, og taki jafnvel verðlitla hluti upp í skattskuldir þeirra, þeir urðu einnig mjög ánægðir með forsetann á fjármálaráðherraárum hans. Þeir sem töldu Þjóðviljann hið besta blað, þeir urðu mjög ánægðir með forsetann á ritstjóraárum hans, en þeir sem telja Þjóðviljann hafa verið hið ógeðfelldasta blað, þeim létti mjög þegar það var upplýst að forsetinn hefði í raun aldrei verið ritstjóri þar á bæ. Svo mætti raunar lengi telja og allt ber að sama brunni. Enda er það auðvitað svo að þó að niðurrifsmenn séu stundum háværir þá eru hinir vitaskuld fleiri sem fjalla með sanngjörnum hætti um fremstu menn. Má þar til dæmis nefna hið merka tímarit, Fortune, sem iðulega birtir vandaðar úttektir á mönnum og málefnum.

En yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi.