Helgarsprokið 29. apríl 2001

119. tbl. 5. árg.

Í gær rituðu samtals fjórar konur tvær greinar í Morgunblaðið. Báðar fjölluðu þessar greinar um konur og fyrirtækjarekstur. Aðra þessara greina rituðu þrjár konur sem sitja í stjórn Lánatryggingasjóðs kvenna og var tilgangur skrifanna – fyrir utan að vekja athygli á einum greinarhöfunda, Steinunni V. Óskarsdóttur borgarfulltrúa R-listans – að segja frá þeirri mikilvægu staðreynd að félagsmálaráðherra, iðnaðarráðherra og borgarstjóri hafi náð samkomulagi um að lengja lífdaga fyrrnefnds sjóðs, en hann var stofnaður sem tilraunaverkefni fyrir þremur árum. Fyrir þá sem vilja lesa greinina er hún aðgengileg hér – að vísu í endurbættri útgáfu Vefþjóðviljans.

„Nafnið eitt – Lánatryggingasjóður kvenna – ætti að nægja til að sjóðurinn kæmist aldrei af hugmyndaborðinu, hvað þá að hugmyndin yrði endurnýjuð að tilraunartímabilinu loknu. Hvernig má það vera að ríkinu haldist uppi að reka sjóð sem hefur það sérstaklega að markmiði sínu að styðja við annað kynið í atvinnurekstri en ekki hitt?“

Nafnið eitt – Lánatryggingasjóður kvenna – ætti að nægja til að sjóðurinn kæmist aldrei af hugmyndaborðinu, hvað þá að hugmyndin yrði endurnýjuð að tilraunartímabilinu loknu. Hvernig má það vera að ríkinu haldist uppi að reka sjóð sem hefur það sérstaklega að markmiði sínu að styðja við annað kynið í atvinnurekstri en ekki hitt? Karlmaður með góða hugmynd en lítið fjármagn fær ekki stuðning ríkisins, en kvenmaður í sömu stöðu fær stuðning! Karlmaðurinn fengi raunar ekki stuðning þó hann hefði mun betri hugmynd en konan. Karlinn verður að sætti sig við að ríkið hygli öðrum á hans kostnað. Allt er þetta gert í nafni jafnréttis og þeir eru víst til sem trúa því að slíkt misrétti sé jafnrétti. Eða segjast að minnsta kosti trúa því, hver sem svo trúir því.

Hin greinin sem minnst var á hér að ofan bar yfirskriftina „Kraftur kvenna“ og þar fór pistlahöfundur yfir fjölmörg atriði í könnun bandarísku hagstofunnar um þátttöku kvenna í atvinnulífinu. Niðurstaðan af öllum tölunum er í stuttu máli sú að hlutur kvenna sé að aukast mikið í atvinnulífinu, að minnsta kosti ef hlutur kvenna er metinn eftir því hversu mörg fyrirtæki eru undir stjórn kvenna. Í sjálfu sér er ekki vel ljóst hvað höfundur var að fara eða hvaða ályktanir hann dró af þessari samantekt sinni, en þó virðist hann telja að sú staðreynd að konur séu að sækja í sig veðrið sé sérstök röksemd fyrir því að styðja þurfi við bakið á þeim með sérstökum aðgerðum. Þó er mismunun, þ.e. sérstakur stuðningur við konur á kostnað karla, ekki ástæða þess að hlutur kvenna er að aukast í Bandaríkjunum. Og í greininni er haft eftir prófessor við viðskiptadeild Kaliforníuháskóla að konur skorti ekki sjálfstraust til að fara út í rekstur eigin fyrirtækja og konur þekki nú vel til varðandi fjármögnun þeirra.

Af upplýsingunum í þessum pistli má því ráða að konur þurfi ekki nokkurn stuðning ríkisins við að koma upp fyrirtækjum eða til að standa sig í atvinnulífinu. Þetta eru svo sem ekki upplýsingar sem koma á óvart, en sumar konur hér á landi og víðar eru staðráðnar í að halda konum í hlutverki fórnarlambsins. Þær konur sem mest beita sér fyrir því að halda konum niðri með slíku tali eru yfirleitt þátttakendur í stjórnmálum og hafa séð að þetta er greið leið til valda. Þær beita gjarnan þeirri aðferð að láta ríkið gera kannanir á hinu og þessu og finna svo út með vafasömum rökstuðningi að konur standi höllum fæti og að þeim sé jafnvel haldið niðri. Þetta gefur þessum konum færi á að vera í stjórnmálum án þess að taka þátt í þeim umræðum sem þar eiga sér stað og skipta máli. Þær einbeita sér að fórnarlambabaráttunni og búa til vandamál sem ríkið þarf svo að grípa inn í til að leysa. Þessi aðferð til að vera í stjórnmálum er ekki nema hæfilega geðfelld, enda felur hún í sér að konum er haldið niðri með tali um að þær eigi sérstaklega bágt umfram aðrar mannskepnur, en hefur því miður stundum skilað röngum konum áfram í stjórnmálum. Konur sem gera út á að halda öðrum konum niðri eiga ekkert erindi í stjórnmál.

En hvað með þá staðreynd að færri konur stofna og stýra fyrirtækjum en karlar, réttlætir það þó ekki afskipti ríkisins? Nei, hlutverk ríkisins í þessum málum á einungis að vera að tryggja að konur og karlar sitji við sama borð, og það er þegar tryggt. Engum dettur í alvöru í hug að halda því fram að konur séu beittar misrétti að þessu leyti og því þurfi ríkið að mismuna til að jafna leikinn. Enda fær slíkt ekki staðist, væri mismunun til staðar yrði að taka á því, en ekki með því að búa til aðra mismunun. Ekkert getur réttlætt að ríkið mismuni fólki eftir kynferði eins og nú er gert. Fyrir utan þetta er staðreyndin sú eins og lýst var hér að ofan, að hlutur kvenna er að aukast hratt í atvinnulífinu. Það þekkja allir sem þar eru þátttakendur eða fylgjast með fréttum.