Laugardagur 28. apríl 2001

118. tbl. 5. árg.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti á miðvikudag að frumvörp til laga sem feli í sér skattahækkun þurfi aukinn meirihluta atkvæða til að verða að lögum. Þetta þýðir að til að koma skattahækkun í gegnum þingið mun þurfa stuðning 2/3 hluta þingmanna, en sem dæmi má nefna að af þeim fimm stóru skattahækkunum sem nýlega hafa verið samþykktar hefði einungis ein náð í gegn með þessa reglu í gildi. Þessi atkvæðagreiðsla á Bandaríkjaþingi má að ósekju verða þingmönnum á Íslandi áminning um að lög sem fela í sér stórfelldar skattahækkanir, svo sem nýleg lög um aukið fæðingarorlof, eru verulega íþyngjandi fyrir landsmenn og því er rétt að þingmenn hugsi sig betur um áður en þeir veita samþykki sitt.

„Hér í Bandaríkjunum ætti enginn að þurfa að yfirgefa heimabæ sinn, fjölskyldu sína og rætur, til þess að verða sér út um gott starf“ sagði bandarískur þingmaður við umræður í öldungadeildinni 1. mars síðastliðinn. Þessi þingmaður ætti að vita um hvað hann talar því hann hefur um sína daga búið í Illinois, Conneticut, Arkansas og nú síðast höfuðborginni Washington. Þingmaðurinn heitir Hillary Clinton og er nýsest í öldungadeildina sem fulltrúi… New York-ríkis.