Össur Skarphéðinsson hefur ekki átt marga góða leiki frá því hann tók við sem fyrsti formaður Samfylkingarinnar. Flokkurinn fer hverfandi undir stjórn hans, en í viðtölum í tengslum við flokksstjórnarfund sem haldinn var um helgina hefur Össur sagt að fylgið sé allt að koma. Þegar honum er bent á að fátt hafi verið á flokksstjórnarfundinum og að skoðanakannanir segi allt aðra sögu telur Össur sig þó finna straumana. Ranghugmyndirnar eru slíkar að mesta furðu vekur að hann skuli ekki hafa haldið því fram að samfylkingarfólk ætti ekki síma og mældist því ekki í könnunum. En hvernig ætlar svo þessi sjálfskipaði leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi að ná vopnum sínum? Jú, það kom fram á flokksstjórnarfundinum að það verður gert með „stefnubreytingu í skattamálum“, eins og það var kallað í fyrirsögn í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Stefnubreytingin er að vísu ekki meiri en svo að stefnan verður áfram sú að hækka skatta og auka umsvif velferðarkerfisins, eins og Össur lýsti í ræðu sinni á fyrrnefndum fundi. Þetta er raunar sama stefna og vinstri menn hafa haft frá upphafi, löngu áður en Samfylkingin eða forverar hennar, Alþýðubandalagið, Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkurinn og Kommúnistaflokkur Íslands.
Þessi stefna Össurar er ekki vænleg til árangurs, sér í lagi þegar litið er til þess að helsti pólitíski andstæðingur Samfylkingarinnar – eins og Samfylkingin sjálf lýsir því – hefur á síðustu árum lækkað skatta og hyggst á næstunni lækka þá frekar. Þessar skattalækkanir eru svo sem ekki allar miklar, en ganga þó í rétta átt á meðan Samfylkingin boðar að enn skuli haldið í úreltar aðferðir hærri skatta og aukinna ríkisumsvifa.
Á meðan Össur heldur á málum með þessum hætti er óhætt að segja að hann eigi sér ekki viðreisnar von.