Mánudagur 16. apríl 2001

106. tbl. 5. árg.

Starfsmenn samkeppnisyfirvalda (!) hafa í ræðu og riti vitnað ákveðinnar málsgreinar úr Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith. Þar segir Smith að menn úr sömu grein atvinnulífsins komi varla saman, jafnvel þó það sé einungis til að skemmta sér, án þess að það leiði til einhvers konar samsæris gegn almenningi eða leynilegs samkomulags um verðhækkanir. Eins og áður hefur verið rakið hér í Vef-Þjóðviljanum er þessi tilvitnun slitin úr samhengi. Hvort það er gert af þekkingarleysi eða vísvitandi skal ósagt látið. Það er heldur ekkert fullyrt um það hér hvort samkeppnisyfirvöld stundi það almennt að slíta orð manna úr samhengi svo úr verði allt önnur merking en ef orðin eru skoðuð í fullu samhengi.

Orðrétt og í samhengi hljómar tilvitnunin í Smith svo: „People of the same trade seldom meet together, even for the merriment and diversion, but the conversation ends in a conspiracy against the public, or in some contrivance to raise prices. It is impossible indeed to prevent such meetings, by any law which either could be executed, or would be consistent with liberty and justice. But though the law cannot hinder the people of the same trade from sometimes assembling together, it ought to do nothing to facilitate such assemblies; much less render them necessary.“

Smith taldi með öðrum orðum að lögum gegn hugsanlegu samsæri framleiðenda gegn neytendum væri hvorki hægt að framfylgja né færu þau saman við frelsi og réttlæti. Heimurinn er ekki fullkominn. Frjáls keppni fyrirtækja á markaði er það ekki heldur. En hún er það besta sem í boði er. Það var afleit hugmynd að ætla opinberum starfsmönnum að þekkja síbreytilegar óskir neytenda um neysluvörur og þarfir fyrirtækja fyrir hráefni. Áætlunarbúskapurinn er óframkvæmanlegur vegna þess að þekkingin er dreifð á meðal allra og það er útilokað að safna henni allri á kontóra ríkisins. Engu að síður höfðaði hugmyndin um áætlunarbúskapinn til margra. Hugmyndin um samkeppnisyfirvöld er byggð á sömu óskhyggju um alviturt stjórnvald sem sér í gegnum holt og hæðir og les hugsanir, óskir og ætlanir neytenda og framleiðenda.