Helgarsprokið 15. apríl 2001

105. tbl. 5. árg.

Í dag er settur punktur aftan við Kristnihátíð sem staðið hefur frá því nokkru fyrir síðustu aldamót og var haldin til að minnast 1000 ára afmælis kristnitöku á Íslandi. Þessi hátíð átti sér margar skemmtilegar og jákvæðar hliðar, en einnig neikvæðar eins og gengur. Meðal hinna jákvæðu má auðvitað telja margvíslegar uppákomur út um allt land fólki til gagns og gamans. Meðal hinna neikvæðu má nefna að kostnaður, sem varð býsna mikill, var ekki borinn af þeim sem kusu sjálfviljugir að taka þátt, heldur af öllum skattgreiðendum. Þetta er reyndar ekki sérstakt vandamál Kristnihátíðar heldur allra hátíða og atburða sem ríkið heldur eða tekur þátt í að halda. Af þessum sökum er mikilvægt að ríkið sé þátttakandi í sem allra fæstu.

Stærsti bletturinn á hátíðinni og það sem helst skyggði á að hún næði þeim hátíðleik sem að var stefnt var ítrekuð þátttaka tiltekins manns í helstu atburðum hennar. Þessi maður hafði skömmu áður en hátíðin hófst, nánar til tekið fyrri hluta árs 1996, gripið til þess bragðs til að tryggja sér embætti forseta Íslands að segja ósatt um trúarafstöðu sína. Með því að skrökva að landsmönnum um þetta atriði tókst honum að tryggja sér embættið.

Það var þó ekki aðeins kostnaðurinn sem var til þess fallinn að setja dálítið óheppilegan svip á hátíðina. Stærsti bletturinn á hátíðinni og það sem helst skyggði á að hún næði þeim hátíðleik sem að var stefnt var ítrekuð þátttaka tiltekins manns í helstu atburðum hennar. Þessi maður hafði skömmu áður en hátíðin hófst, nánar til tekið fyrri hluta árs 1996, gripið til þess bragðs til að tryggja sér embætti forseta Íslands að segja ósatt um trúarafstöðu sína. Með því að skrökva að landsmönnum um þetta atriði tókst honum að tryggja sér embættið. Þar sem sumir kunna að hafa gleymt málsatvikum á þessum fimm árum er rétt að rifja þau upp hér.

Ólíkt því sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur viljað láta fólk halda undanfarin ár fæddist hann ekki um það leyti sem hann ákvað að bjóða sig fram til forseta árið 1996. Haustið áður var hann til og hafði þá skoðanir á trúmálum. Í þætti á Rás 2 hinn fimmtánda október 1995 var hann spurður hvort hann væri enn sömu skoðunar og hann hafði sett fram í viðtali við Helgarpóstinn fimmtán árum áður, að hann væri „nokkuð sannfærður um að guð væri ekki til“. Ólafur Ragnar staðfesti þetta og bætti við að „voðalega erfitt“ væri að sannfæra sig um að einn af þeim guðum sem trúað er á í heiminum, sá sem ríki í kirkjunum hér heima, sé hinn eini rétti. Hann sagðist aðspurður eiginlega ekki vita á hvað hann tryði, en hann héldi að hann tryði „svona einna helst á manninn“. Þessi var nú trúarsannfæring núverandi forseta Íslands nokkrum mánuðum áður en hann hóf kosningabaráttu sína.

Í kosningabaráttunni var Ólafur Ragnar hins vegar orðinn nýr og „betri“ maður. Þá sagði hann á Stöð 2 hinn ellefta júní 1996: „Auðvitað er ég kristinn maður eins og þorri þjóðarinnar og hef verið í þjóðkirkjunni, skírður og fermdur og trúi á þann guð sem að sérstaklega amma mín kenndi mér að trúa á.“ Þarna var kominn fram nýr Ólafur Ragnar. Þetta var frambjóðandinn Ólafur Ragnar, sem hafði alla tíð verið trúaður maður og þekkti auðvitað hvorki haus né sporð á þessum Ólafi Ragnari sem áður hafði ítrekað lýst andstæðri skoðun. Með þessum ósannindum tókst Ólafi Ragnari að sannfæra landsmenn um að hann væri rétti maðurinn til að gegna embætti forseta. Hann nýtti sér trúgirni trúaðra Íslendinga og komst í embættið á röngum forsendum.

Nú er nauðsynlegt að taka eitt fram svo það valdi ekki misskilningi, og það er að Vefþjóðviljanum er algerlega sama um trúarafstöðu Ólafs Ragnars. Hvort hann trúir á stokka og steina eða „einna helst á manninn“ er ekkert sem Vefþjóðviljann skiptir nokkru máli. Hvorki Ólafur Ragnar eða aðrir menn ættu að vera dæmdir eftir því á hvað þeir trúa. Menn verða hins vegar dæmdir eftir því hvort þeir eru menn orða sinna eða hvort þeir eru ósannindamenn. Ólafur Ragnar hefur skipað sér í síðarnefnda hópinn og það furðulega er að þeir sem hann fór verst með í kosningabaráttu sinni, þ.e. kristnir Íslendingar, hafa látið sig hafa það að leyfa honum að taka þátt í helstu hátíðum sínum frá því hann tók við embætti. Eitt væri að leyfa trúlausum en ærlegum manni að taka þátt í slíkum athöfnum. Það hefur oft verið gert. En að leyfa manni þátttöku sem beinlínis hefur misnotað trú fólks er allt annað og verra.

Ef til vill hugsa aðstandendur hátíðanna með sér að rétt sé og í anda kristninnar að fyrirgefa Ólafi Ragnari ósannindin. Það væri út af fyrir sig sjónarmið ef hann hefði viðurkennt að hafa gert eitthvað rangt, en það hefur hann aldrei gert. Og haldi einhver að Ólafur Ragnar eigi þá vörn að hafa á milli þeirra viðtala sem vitnað er til hér að framan skipt um skoðun, þá má upplýsa að svo er ekki. Hann lætur einmitt eins og hann hafi alltaf verið sömu skoðunar, það er að segja þeirrar sem hann kynnti í kosningabaráttunni.

Fyrst kirkjunnar menn hafa ekki haft þann dug hingað til að taka á þessu máli er ekki við því að búast að þeir geri það hér eftir. Þeir halda líklega að best sé að þegja um málið og vona að fólk hafi gleymt því hvers konar maður gegnir nú embætti forseta Íslands. Þeir vona líklega að það skyggi minna á hátíðarhöldin að þegja um óþægilegu málin en taka á þeim. Ef til vill er það rétt gagnvart þeim sem taka hátíðarhöldin ekki nema hæfilega hátíðlega. Þeim sem meta hátíðirnar eftir innihaldi þeirra en ekki umgjörð hlýtur þó að þykja verra að sjá Ólaf Ragnar meðal helstu þátttakenda og þeim er enginn greiði gerður með þögn kirkjunnar um framkomu hans.

Í dag er mesti hátíðardagur kristinna manna.
Vefþjóðviljinn óskar þeim og öðrum landsmönnum gleðilegra páska.