Laugardagur 14. apríl 2001

104. tbl. 5. árg.

Jón Kristjánsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins á Austurlandi, hefur tekið við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu af flokkssystur sinni Ingibjörgu Pálmadóttur. Þessi ráðherraskipti leiða hugann að fjölda ráðherra hér á landi, en eins og menn muna þá var ráðherrum fjölgað úr tíu í tólf þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók við völdum fyrir um tveimur árum. Sumir hafa haldið því fram að þessi fjölgun ráðherra sé úr takt við þá þróun að hlutur ríkisins minnki en markaðarins aukist, en á móti má segja að sú þróun er ekki augljós á öllum sviðum. Ríkið stendur sig að vísu (loksins) þokkalega í að losa sig út úr atvinnurekstri og ef fram heldur sem horfir verður það að mestu komið út úr slíkum rekstri við lok þessa kjörtímabils. Það eru mikil umskipti frá því sem var fyrir nokkrum árum. En um leið og þetta er að gerast heldur ríkið áfram að planta í reglugerðafrumskóginn og stöðugur þrýstingur er auk þess á stjórnvöld að búa til ný embætti og nýjar stofnanir sem eiga að hafa það hlutverk að passa almenning. Vöggustofusósíalisminn er sem sagt vaxandi vandamál.

Síauknar tekjur ríkisins eru líka vaxandi vandamál, enda hafa tekjur þess aldrei verið meiri en nú um mundir. Ríkið þenur sig því út á ákveðnum sviðum um leið og það dregur sig í hlé á öðrum, en markmiðið hlýtur að vera að draga það saman á öllum sviðum og leyfa einstaklingunum að njóta sín sem mest án afskipta þess. Ein ástæðan fyrir því að ríkið eykur afskipti sín á sumum sviðum er að ráðherrar hafa ekki nóg fyrir stafni. Ráðherrar eru í dag orðnir of margir með of þröngt starfssvið og þetta verður til þess að hver og einn verður uppátektarsamari en góðu hófi gegnir, enda vilja þeir allir geta bent á að eftir þá liggi einhver störf þó markmið ráðherra ætti að vera að gera sem allra minnst.

Í stað þess að bæta við ráðherra hjá Framsóknarflokknum þegar Ingibjörg hætti hefði verið réttara að fækka um einn hjá Sjálfstæðisflokknum, að því gefnu að flokkarnir vilji áfram að jafn margir ráðherrar séu úr hvorum flokki. Þessu hefði líka að ósekju mátt fylgja uppstokkun ráðuneyta með enn meiri fækkun ráðherra. Þar hefði mátt sameina atvinnuvegaráðuneytin, gera heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálaráðuneyti að einu, sameina menntamálaráðuneytið dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, loka umhverfisráðuneytinu og skipta verkefnunum niður á viðeigandi ráðuneyti og sameina samgönguráðuneytið utanríkisráðuneytinu og koma þar með í veg fyrir að utanríkisráðherra missti öll tengsl við landið eins og stundum hefur verið haldið fram. Með óbreyttu forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti mundi þessi uppstokkun þýða að hér væru sex ráðherrar í sex ráðuneytum, sem væri helmingsfækkun ráðherra. Ráðherrarnir hefðu þar með eitthvað að gera og gætu ekki setið allan daginn við að láta sér detta í hug ráð til að vekja á sér athygli.