Það virðist nokkuð útbreiddur misskilningur að starfsmenn hins opinbera geti reiknað út æskilegan fjölda fyrirtækja á tilteknum markaði og rétta markaðshlutadeild hvers fyrirtækis. Trúin á þessa reiknikúnstir kerfiskarlanna nær jafnvel svo langt að þeir telja sig geta reiknað út hvaða hreyfingar fyrirtækja á markaði eru neytendum til heilla og hverjar ekki. Svo nákvæmir eru þessir útreikningar að oft skeikar ekki nema 1% hvort samruni fyrirtækja er neytendum til heilla eður ei að mati reiknimeistaranna á opinberu stofnununum. Þeir geta einnig reiknað það út hvort hækkun verðs, lækkun verðs og óbreytt verð sé óæskilegt fyrir neytendur. Ekki er heldur gert ráð fyrir framtíðinni í þessum reiknikúnstum; engar líkur taldar á nýjum keppinautum, nýjum söluaðferðum, nýjum vörum sem keppa við hinar sem fyrir eru eða breytingum á þeim fyrirtækjum sem fyrir eru, engin gjaldþrot, engin eigendaskipti, ekkert.
Það kemur ekki á óvart að þessir spádómar um niðurnjörvaða framtíð rætast ekki. Ágætt dæmi um það er mál sem kennt er við Mylluna-Brauð hf. Samkeppnisstofnun taldi að sameining þessara fyrirtækja leiddi til óæskilegrar stöðu og minni samkeppni en skömmu eftir sameininguna hófst aukinn innflutningur á brauðum og ný stór brauðverksmiðja var sett upp. Það urðu breytingar í framtíðinni og hefur það sjálfsagt komið starfsmönnum Samkeppnisstofnunar í opna skjöldu. Starfsmönnum Samkeppnisstofnunar er í sjálfu sér vorkunn að vera settir í þá stöðu að spá fyrir um framtíðina á mörkuðum. Þeir hafa engar forsendur til þess og ættu því ekki að gera aðrar kröfur til frjálsrar samkeppni en að markaðir séu opnir og nýir þátttakendur mæti ekki hindrunum opinberra aðila. Allar samkeppnishindranir eru vegna hins opinbera; verðlagshöft, verndartollar, há skráningargjöld, flóknar reglugerðir, auglýsingahöft, fjármagnstekjuskattur o.s.frv. draga úr möguleikum nýrra fyrirtækja að koma inn á markað. Á sama tíma rekur þetta sama ríki sérstaka stofnun sem á að vernda frjálsa samkeppni! Íslenski grænmetismarkaðurinn ber þess til dæmis skýr merki að framleiðendur njóta tollverndar ríkisins gegn erlendri samkeppni. Þetta vissu allir og úrskurður Samkeppnisráðs breytir engu öðru þar um en að fyrirtækin sem nutu verndarinnar þurfa að greiða sekt til ríkisins. Færi vel á því að sektarféð yrði nýtt til að greiða laun þeirra embættismanna í landbúnaðarráðuneytinu sem sjá um útfærslu á verndartollunum. Neytendur eru hins vegar engu bættari.
Það kemur því vart á óvart þótt frjálslyndir hagfræðingar hafi efasemdir um gagnsemi svonefndra samkeppnislaga. Vef-Þjóðviljinn vitnaði fyrir tæpu ári í grein eftir Izrael Kirzner hagfræðiprófessor við New York háskóla þar sem hann fór yfir nokkur atriði er samkeppnislöggjöfin byggir á. Niðurstaða hans er sú að ekki sé þörf samkeppnislögum. Nægilegt sé að fella niður allar samkeppnishindranir sem hið opinbera hefur sjálf komið upp. Sérstök samkeppnislög og samkeppnisstofnun eru óþörf.