Fimmtudagur 12. apríl 2001

102. tbl. 5. árg.

Nú þegar dubbað hefur verið upp á flugstöð Leifs Eiríkssonar í tilefni af enn einni „metnaðarfullri þátttöku“ íslenskra skriffinna á alþjóðavettvangi hafa stjórnvöld hrist fram úr erminni frumvarp til laga sem miðar að því að tryggja ríkinu tekjur fyrir tiltekna vinnu sem það hefur tekið á sig í þessu samstarfi. Með Schengen samstarfinu skuldbinda þátttökuríkin sig meðal annars til að gefa út samræmdar vegabréfsáritanir til þegna ríkja utan samstarfsins. Íslenskir embættismenn þurfa því nú að gefa út vegabréfsáritanir, jafnvel aðgangsáritanir fyrir fastráðna starfsmenn á Keflavíkurflugvelli, í mæli sem ekki hefur áður þekkst. Nú eru nauðsynlegar vegabréfsáritanir vegna gegnumferðar um flughöfn eða um ríki. Það er þó ágætt að vita til þess að ýmsar tegundir vegabréfsáritna verða í boði. Þannig verður hægt að fá áritun til skamms tíma en 30 dagar teljast í þessu tilliti skammur tími. Einnig er boðið upp á áritun fyrir fleiri en eina komu í allt að ár annars vegar en í allt að fimm ár hins vegar. Svo verður líka hægt að fá áritun til langs tíma. Vegabréfsáritun með takmarkað gildissvið, tæki til dæmis bara til Íslands, verður einnig í boði.

Áritanir þessar verða ekki látnar af hendi endurgjaldslaust. Höfundar Schengen sáu til þess og settu samræmdar reglur um gjald sem innheimta ber fyrir hverja áritun. Er það að sjálfsögðu miðað við evrur sem íslensk stjórnvöld hafa nú samviskusamlega reiknað yfir í íslenskar krónur og lagt til að fari inn í lög um aukatekjur ríkissjóðs. Er ljóst að hver áritun mun kosta 800 til 4000 krónur. Einstaklingar sem ferðast saman, allt 50 stk., fá þó dágóðan afslátt.

Nú geta menn velt fyrir sér hagræðinu af þessari pappírsvinnu en sé það látið liggja milli hluta er athyglisvert að huga að ummælum í greinargerð með frumvarpi til breytinga á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. „Samræming gjaldtöku að þessu leyti styðst við þau rök að mismunandi gjaldtaka kunni að leiða til þess að umsækjendur mundu leita þangað sem gjaldið væri lægst sem m.a. væri til þess fallið að auka hættuna á misnotkun kerfisins.“ Menn hljóta að sjá hvílík hætta það væri ef menn sæktu um áritanir þar sem það væri hagstæðast. Vefþjóðviljinn er að minnsta kosti viss um að þó að þessi hluti Schengen samstarfsins flokkist undir samráð þá væri náttúrulega enn verra ef einstök ríki myndu skara fram úr með betri kjörum á þessu sviði. Það er gott að hagsmunir neytenda, hér ferðamanna, eru alltaf tryggðir í samkrulli embættismanna ríkjanna.